18 skotárásir í skólum á árinu

Þrátt fyrir að ekki sé langt liðið á árið 2018 hafa engu að síður 18 skotárásir átt sér stað í skólum í Bandaríkjunum frá áramótum. Skotárásin í framhaldsskóla í Parkland í Flórída-ríki í gær, sem kostaði að minnsta kosti 17 lífið, var sú átjánda. Lögreglan virðist eiga erfitt með að koma í veg fyrir slíkar árásir að því er segir í frétt AFP.

Fjöldi slíkra árása á þeim eina og hálfa mánuði sem liðinn er af árinu þykir undirstrika enn frekar hversu útbreitt ofbeldi, þar sem skotvopn koma við sögu, er í Bandaríkjunum. Vegna þess hversu slíkar árásir eru orðnar algengar þurfa nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum í landinu reglulega að æfa viðbrögð við slíku.

Enn fremur segir í fréttinni að í þessum 18 skotárásum, sem átt hafi sér stað í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum, hafi enginn orðið fyrir líkamstjóni í átta, tvær tengdust tilraunum til sjálfsvígs og átta voru árásir á aðra. Þá kemur fram að fjöldi slíkra árása virðist vera farinn að valda doða hjá fólki gagnvart þeim.

Frá því í janúar 2013 hafa að minnsta kosti 291 skotárás átt sér stað í bandarískum skólum. Kröfur um frekari hömlur á byssueign hafa komið fram í kjölfar allra þessara árása en hagsmunasamtökum byssueigenda hefur tekist að koma í veg fyrir það segir í fréttinni. Þvert á móti hafi verið slakað á reglum í þeim efnum í sumum tilfellum.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert