„Hún var myrt í síðustu viku“

Samuel Zeif, nemandi í Stoneman Douglas-skólanum, brast í grát á …
Samuel Zeif, nemandi í Stoneman Douglas-skólanum, brast í grát á fundi með forseta Bandaríkjanna í gær. AFP

„Ef þú ert með kennara sem er lunkinn með byssu þá gæti [hann] bundið enda á árás mjög fljótt,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi í gær með þeim sem lifðu árásina í framhaldskólanum í Flórída af. Sautján féllu í árásinni. Hann sagði að „byssulaus svæði“ myndu engan árangur bera. Í hugum „brjálæðinga“ og „hugleysingja“ væri slíkt eins og heimboð.

Fundi Trumps með eftirlifendum árásarinnar í Hvíta húsinu var sjónvarpað. Á sama tíma höfðu nemendur efnt til mótmæla á götum úti víðs vegar um Bandaríkin þar sem þeir kröfðust hertari vopnalöggjafar. 

„Aldrei aftur“ stóð m.a. á skilti sem nemendur úr Stoneman Douglas-framhaldsskólanum, þar sem árásin var gerð, héldu á lofti fyrir utan þinghúsið í Flórída. „Hagið ykkur eins og fullorðin og gerið eitthvað“ stóð á öðru. 

Donald Trump á fundi með nemendum úr framhaldsskólanum þar sem …
Donald Trump á fundi með nemendum úr framhaldsskólanum þar sem árásin var gerð í síðustu viku. AFP

„Ég get ekki lengur gengið um gangana eins og ég hef gert milljón sinnum áður án þess að finna fyrir ótta og depurð,“ sagði Florence Yared, nemandi úr skólanum, við mannfjöldann. Auk nemenda úr skólanum tóku þúsundir stuðningsmanna þeirra þátt í mótmælunum.

Í Hvíta húsinu sátu á sama tíma einnig nokkrir af nemendunum, aðstandendur fórnarlamba árásarinnar og aðstandendur þeirra sem féllu í skotárásunum í Columbine-skólanum, Sandy Hook og öðrum skólum þar sem árásar hafa verið gerðar. 

Andrew Pollack, faðir hinnar átján ára gömlu Meadow sem féll í árásinni, sagði við Trump að hann væri kominn til fundar við hann því dóttir hans hefði enga rödd. „Hún var myrt í síðustu viku.“

„Við tryggjum öryggi á flugvöllum. Við tryggjum öryggi á tónleikum, íþróttaviðburðum, við sendiráð,“ sagði Pollack. „Ég kemst ekki um borð í flugvél með flösku af vatni. En við leyfum skepnum að ganga inn í skóla.“

Justin Gruber, fimmtán ára nemandi úr Stoneman Douglas-skólanum segir að mikið þurfi að breytast í Bandaríkjunum svo árásir sem þessar endurtaki sig ekki. „Fólk á að geta verið öruggt og þegar það fer í skólann á það að vera öruggt.“

Samuel Zeif, sem missti vin sinn í árásinni í síðustu viku, sagði mikilvægt að sýna styrk fyrir þá sem hafa ekki lengur rödd. „Við skulum aldrei leyfa þessu að gerast aftur, gerið það,“ sagði hann við forsetann. „Ég skil ekki hvers vegna ég get gengið inn í búð og keypt mér stríðsvopn.“

Þúsundir mótmæltu við þinghús Flórída í gær og minntust þeirra …
Þúsundir mótmæltu við þinghús Flórída í gær og minntust þeirra sem féllu árásinni í Parkland. AFP

Eftir hina mannskæðu árás í Sandy Hook-skólanum árið 2012 þar sem tuttugu börn og sex kennarar féllu var þess krafist að vopnalöggjöfin yrði endurskoðuð. Það var ekki gert og skiptist bandaríska þjóðin í tvær fylkingar í þeim efnum. 

En nemendur segja að nú, eftir árásina í Parkland, sé komið að tímamótum. Ungmenni hafa lýst stuðningi sínum við hert eftirlit með vopnum og nota samfélagsmiðla til að viðra skoðanir sínar. 

Í gær fóru þúsundir þeirra og annarra stuðningsmanna herts eftirlits í mótmælagöngur í Bandaríkjunum, m.a. í Washington, Minneapolis og Chicago.

Þann 24. mars hefur svo verið efnt til kröfugangna um öll Bandaríkin. 

Kevin Trejos, nemandi við framhaldsskólann í Parkland, ræðir við þingmenn …
Kevin Trejos, nemandi við framhaldsskólann í Parkland, ræðir við þingmenn í gær. AFP

Nemendur framhaldskólans í Parkland eru þegar farnir að beita þingmenn sem stutt hafa núverandi vopnalöggjöf þrýstingi. Það gerðu þeir m.a. á fundi í ráðhúsi í Flórída í gær. Einn nemandinn hvatti þingmann repúblikana, Marco Rubio, til að hætta að taka við peningum í kosningasjóð sinn frá samtökum skotvopnaeigenda og framleiðenda. 

Rubio svaraði ekki kröfunni um kosningastyrkina en sagðist tilbúinn að íhuga stöðu sína varðandi stór skothylki, þ.e. hylki sem geyma fjölda skota. Setja mætti hömlur á sölu þeirra. „Það gæti bjargað mannslífum í árásum.“

Talsmaður samtaka skotvopnaeigenda, National Rifle Association, var ítrekað spurður á fundinum í ráðhúsinu hvort setja ætti takmarkanir á sölu hálfsjálfvirkra vopna, en hann kom sér stöðugt undan að svara beint. Þess í stað beindi hann umræðunni frá skotvopnum að geðrænum vandamálum. 

„Ég held að þetta brjálaða skrímsli hefði aldrei átt að fá byssu,“ sagði talsmaðurinn, Dana Loesch, um árásarmanninn. 

Trump naut mikils stuðnings samtakanna í kosningabaráttu sinni. Lögreglustjórinn í Parkland, Scott Israel, tók ekki undir þá tillögu Trumps að vopna kennara í skólum. Hann sagði að lögreglumenn sem væru til þess hæfir og þjálfaðir ættu að bera vopn á skólalóðum. „Ég held að kennarar ættu ekki að vera vopnaðir. Ég held að kennarar ættu að kenna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka