Tossalisti Trumps vekur athygli

Trump var með hugmyndir að nokkrum spurningum á fundinum. Og …
Trump var með hugmyndir að nokkrum spurningum á fundinum. Og áminningu um að sýna samhug.

„Ég skil ykkur,“ stóð á tossalita sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt á á fundi sínum í gær með þeim sem komust lífs af úr skólaárásinni í Flórída. Samfélagsmiðlar hafa logað eftir að mynd af listanum var birt. 

Trump bauð nemendum úr Stoneman Douglas-framhaldsskólanum til fundar við sig í Hvíta húsinu í gær. Á fundinum voru einnig ættingjar fórnarlamba árásarmannsins sem og aðstandendur fórnarlamba fleiri skólaárása sem gerðar hafa verið síðustu ár. 

Á lista með hugmyndum að umræðuefnum á fundinum stóð einnig: „Hvað viltu helst að ég viti um reynslu þína?“ og „hvað getum við gert svo þú upplifir þig öruggan?“

Fundi Trumps var sjónvarpað í beinni útsendingu. Á honum lagði hann til að kennarar myndu bera vopn til að stöðva árásir í skólum. 

„Hann þurfti minnismiða til að muna að segjast skilja þau,“ skrifaði einn Twitter-notandi. Fleiri gagnrýna að forsetinn hafi þurft að láta minna sig á að sýna samhygð með þeim sem mættu til fundarins.









mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert