Hafnaði trú sem byggðist á hatri

Billy Graham.
Billy Graham. AFP

Billy Graham, nafntogaðasti prédikari 20. aldarinnar, lést í vikunni, 99 ára að aldri. Hann náði eyrum ótrúlegs fjölda fólks vítt og breitt um heiminn og hvatti kristið fólk til að vera stolt af sínum gildum og hleypa Jesú Kristi inn í hjartað. 

Skilaboð mín eru skýr: Jesús Kristur kom, dó á krossinum, reis upp frá dauðum og bað okkur um að iðrast synda okkar og taka á móti honum í trú sem Drottni okkar og frelsara. Og gerum við það fyrirgefast okkur allar okkar syndir.“

Þannig dró Billy Graham saman boðskap sinn í síðustu krossferðinni, eins og prédikunarferðir hans voru kallaðar, árið 2005 í New York. Hann hafði þá ákveðið að rifa seglin, kominn fast að níræðu, eftir meira en 400 krossferðir sem borið höfðu hann til 185 landa. Um 215 milljónir manna munu hafa hlýtt á prédikanir Grahams á krossferðunum, auk þess sem hann náði til margra milljóna til viðbótar gegnum sjónvarp, myndbönd, netið og 34 bækur sem eftir hann liggja. Þegar hann flutti sína síðustu kveðju, í vikunni sem hann varð 95 ára haustið 2013, komu hvorki fleiri né færri en 480 sjónvarpsstöðvar í Bandaríkjunum og Kanada að útsendingunni. Þegar Billy Graham talaði þá var hlustað.

Það var ekki bara alþýða manna, allir forsetar Bandaríkjanna frá Harry S. Truman að Barack Obama leituðu í smiðju til Grahams og báðu með honum. Eflaust hefði prédikarinn getað gefið núverandi forseta holl ráð líka en hann dró sig í hlé fyrir tæpum fimm árum af heilsufarsástæðum. Graham glímdi við margvísleg veikindi seinustu árin, svo sem krabbamein í blöðruhálsi, vökvasöfnun í heila og einkenni Parkinson-sjúkdómsins.
Það var einmitt einn forsetanna, George Bush eldri, sem lýsti Graham sem „sálnahirði Bandaríkjanna“. Oft var eins og Graham væri æðsti trúarleiðtogi þjóðarinnar. Það kom ekki síst í ljós þegar myrkrið var hvað mest eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Þá var leitað til hans eftir sálgæslu. Líka ma´ nefna að Graham var sæmdur æðsta heiðursmerki bandaríska þingsins. 

Ólst upp á kúabúi

William Franklin Graham fæddist árið 1918, rétt áður en fyrri heimsstyrjöldinni lauk, og ólst upp á kúabúi í Charlotte. Hann hafði ekkert yndi af því að fara í kirkju sem barn, vildi miklu frekar vera úti að spila hafnabolta, en það breyttist þegar hann var fimmtán ára og kynntist farandprédikaranum Mordecai Fowler Ham. Þaðan í frá helgaði hann líf sitt þjónustu við Krist.
„Mér var ekkert um evangelisma gefið,“ rifjaði hann upp síðar. „Vinur minn dró mig hins vegar með sér á samkomu og andi Guðs almáttugs byrjaði að tala til mín þegar ég fór aftur, kvöld eftir kvöld. Kvöld eitt, þegar mér var boðið að gera Jesú að leiðtoga lífs míns sagði ég einfaldlega: Já, Guð, það vil ég gera og vissi að líf mitt hafði tekið nýja stefnu.“

Graham kynntist eiginkonu sinni, Ruth McCue Bell, í Chicago og gengu þau í heilagt hjónaband árið 1943 og eignuðust fimm börn. Hjónaband þeirra varði í 64 ár, eða þangað til Ruth lést árið 2007.

Graham fór í sína fyrstu evangelísku krossferð árið 1947 en það var krossferðin í Los Angeles tveimur árum síðar sem fangaði athygli þjóðarinnar; hundruð þúsunda flykktust að sjá hinn unga prédikara. Eftir það varð ekki aftur snúið.

Það sem einkenndi prédikanir Grahams alla tíð var afgerandi trúfesta og miklir persónutöfrar. Hann átti auðvelt með að hrífa fólk með sér.

Árið 1950 setti Graham trúboðssamtök sín á laggirnar en þau eru með um fimm hundruð manns í vinnu vítt og breitt um heiminn. Sonur Grahams, Franklin, veitir samtökunum nú forstöðu.

Graham lagði sig alltaf fram um að ferðast víða enda sannfærður um að Guð skeytti hvorki um landamæri né þjóðerni. Fjölmennasta samkoma hans var haldin í Seúl í Suður-Kóreu 1973, þegar meira en ein milljón manna kom til að hlýða á boðskap Grahams. Sama ár lét hann eftirfarandi orð falla í Jóhannesarborg í Suður-Afríku: „Kristur er allra, hvar í heiminum sem þeir búa, og ég hafna allri trú sem byggist á hatri. Kristindómurinn er ekki aðeins trú hvíta mannsins og látið engan segja ykkur annað.“

Þannig bauð hann kynþáttahatri birginn en Graham neitaði að prédika í landinu þangað til samkomur hans voru opnar bæði hvítum og svörtum.
Graham komst einnig inn fyrir járntjaldið seint á áttunda áratugnum og prédikaði í kommúnistaríkjunum, þrátt fyrir þá staðreynd að lítið umburðarlyndi væri gagnvart kristindómnum þar um slóðir.

Hugvekjur Graham birtust líka víða, m.a. hér í Morgunblaðinu.

Nánar er fjallað um Billy Graham í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert