Demókratar, sem eiga sæti í leyniþjónustunefnd bandaríska þingsins, hafa birt minnisblað opinberlega þar sem þeim ásökunum, að FBI og dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafi misnotað vald sitt þegar rannsókn hófst á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016, er hafnað.
Formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, repúblikaninn Devin Nunes, skrifaði ásamt samstarfsmönnum sínum umdeilt minnisblað sem nefndin samþykkti að birta nýverið. Nunes er bandamaður Trumps og segir að alríkislögreglan og dómsmálaráðuneytið hafi misnotað vald sitt í kosningabaráttunni haustið 2016 með því að óska eftir heimild til að hafa eftirlit með Carter Page, sem var þá ráðgjafi Trumps í utanríkismálum. Page hefur þó ekki verið sakaður um lögbrot.
Í minnisblaðinu, sem demókratar hafa nú birt, er þessum ásökunum alfarið vísað á bug, að því er segir á vef BBC.
Page er grunaður um að hafa starfað fyrir rússnesk stjórnvöld.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að nýja minnisblaðið sé þvæla. Hann hefur margsinnis neitað að einhver samskipti hafi verið á milli framboðs hans og Rússa í kosningabaráttunni árið 2016.
Minnisblað demókrata, sem er 10 blaðsíður, var birt í gær. Búið er að strika yfir hluta af því sem kemur fram í minnisblaðinu til að koma í veg fyrir að nöfn heimildarmanna verði birt.
Þar kemur fram, að minnisblaðið sem repúblikanar birtu hafi ekki verið annað en tilraun til að grafa undan trúverðugleika og trausti á FBI, dómsmálaráðuneytinu og þeirri rannsókn sem sé nú í gangi þar sem verið er að skoða meint tengsl Rússa við framboð Trumps.
Alríkislögreglan fékk heimildina frá sérstökum dómstól á grundvelli laga (FISA) um eftirlit með mönnum sem grunaðir eru um njósnir fyrir önnur ríki. Í minnisblaði repúblikana er skírskotað til trúnaðargagna sem Nunes og samstarfsmenn hans segja að sanni að FBI og dómsmálaráðuneytið hafi misnotað lagaheimildina í pólitískum tilgangi til að rannsaka meint tengsl aðstoðarmanna Trumps við menn sem tengjast stjórnvöldum í Rússlandi.
Þessu hafna demókratar.