„Hún er tilbúin í hvað sem er“

Stúlkan grét á meðan forsetinn talaði við hana.
Stúlkan grét á meðan forsetinn talaði við hana. Mynd/Skjáskot af vef BBC

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur verið harðlega gagnrýndur á samfélagsmiðlum eftir að hann sagði við litla stúlku í hermannabúningi að hún yrði heiðruð ef hún yrði drepin í bardaga. Erdogan lét þessi orð falla í beinni útsendingu frá flokksþingi AK-flokksins á laugardag. BBC greinir frá.

„Ef hún deyr sem píslarvottur, þá verður fáninn breiddur yfir hana,“ sagði Erdogan meðal annars við stúlkuna sem grét á meðan forsetinn talaði við hana.

Í kjölfarið var hann hylltur af stuðningsmönnum sínum, sem sögðu: „Foringi, farðu með okkur til Afrin.“ En Tyrklandsher hefur síðustu vikur gert árásir á Afrin-hérað í norðurhluta Sýrlands, með það að markmiði að koma kúrdískum uppreisnarsveitum af svæðinu.

Erdogan hefur meðal annars verið sakaður um ofbeldi gegn barni og gagnrýndur fyrir að upphefja dauðann með því að tala svona við stúlkuna.

Forsetinn sagði að ef stúlkan félli í bardaga þá yrði …
Forsetinn sagði að ef stúlkan félli í bardaga þá yrði hún heiðruð. Mynd/Skjáskot af vef BBC

Á upptökunni sést hvar stúlkan í hermannabúningnum virðist ná athygli Erdogan og býður hann henni upp á svið til sín. „Sjáið hvað við höfum hér! Stúlka, hvað ert þú að gera hér? Við erum með vínrauðu alpahúfuna okkar hérna, en þær gráta aldrei,“ sagði forsetinn og vísaði þar vínrauðrar alpahúfu sem er hluti af einkennisbúningi tyrkneskra hermanna.

„Hún er líka með tyrkneska fánann í vasanum. Ef hún deyr píslarvættardauða þá verður fáninn breiddur yfir hana, það er guðs vilji. Hún er tilbúin í hvað sem er, er það ekki?“ spurði Erdogan og stúlkan svaraði játandi, með grátstafinn í kverkunum.

Svo kyssti forsetinn stúlkuna og leyfði henni að fara. Ekki er vitað hver stúlkan er eða hvers vegna hún klæddist hermannabúningi, en Erdogan hefur verið fordæmdur á samfélagsmiðlum vegna ummæla sinna. „Þetta er skammarlegt, mjög slæmt. Hún er bara barn, þú óskar henni ekki dauða og segir það guðs vilja,“ sagði einn reiður gagnrýnandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert