Kókaínið metið á 1,7 milljarða

Melina Roberge og Isabelle Lagacé.
Melina Roberge og Isabelle Lagacé. Instagram

Tveir Kanadabúar hafa játað að hafa smyglað kókaíni til Ástralíu um borð í skemmtiferðarskipi. Þau, Melina Roberge, 23 ára og Andre Tamine, 64 ára, höfðu áður neitað hlutdeild í smyglinu en 95 kg af kókaíni fundust um borð í skemmtiferðaskipinu MS Sea Princess árið 2016.

Réttarhöldin í málinu hefjast síðar í vikunni í Ástralíu en þriðja manneskjan, Isabelle Lagacé, 29 ára, sem einnig er frá Kanada var dæmd í fangelsi í nóvember fyrir sinn hlut í smyglinu. 

Að sögn ástralskra yfirvalda er áætlað götuvirði eiturlyfjanna 17 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 1,7 milljarða króna. 

Á BBC kemur fram fram að Roberge og Lagacé hafi birt myndir af sér á samfélagsmiðlum úr ferðalaginu sem átti að vera sjö vikna skemmtiferð um heimsins höf. Við komuna til Sydney í Ástralíu fundu fíkniefnahundar 35 kg af kókaíni í káetu þeirra og 60 kg til viðbótar í káetu Tamine.

Ekki er vitað hver tengsl Tamine og kvennanna eru en talið er að skipulögð glæpasamtök beri ábyrgð á smyglinu. 

Lagacé var dæmd í 7 og hálfs árs fangelsi fyrir sinn hlut en hún segist hafa tekið að sér smyglið til að greiða niður skuldir sínar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert