Hope Hicks, samskiptastjóri Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, mun láta af störfum von bráðar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsetaembættinu.
Í frétt BBC kemur fram að Hicks hefur einnig starfað sem einn af nánustu ráðgjöfum forsetans til lengri tíma. Hicks, sem er 29 ára og starfaði áður sem fyrirsæta, sagði við samstarfsfólk sitt að hún væri búin að áorka öllu sem hún stefndi að í starfi sínu í Hvíta húsinu.
Hicks er fjórða í röðinni til að gegna starfi samskiptastjóra Trumps frá því að hann tók við embætti.
Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Sarah Sanders, segir að enn er óljóst hvenær Hicks muni nákvæmlega láta af störfum. Hún segir að afsögnin tengist ekki fundi njósnamálanefndar Bandaríkjanna þar sem Hicks sat fyrir svörum í gær.
Á fundinum sagði Hicks að hún hefði endrum og eins þurft að segja „hvítar lygar“ um forsetann í starfi sínu. Hún hafi hins vegar aldrei logið til um neitt sem tengist rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016.
„Hope er framúrskarandi og hefur staðið sig vel í starfi síðastliðin þrjú ár,“ segir í yfirlýsingu Trumps um starfslok Hicks. Forsetinn segist sannfærður um að leiðir þeirra muni liggja aftur saman í starfi í framtíðinni.