Fullt gagnsæi sagt ávísun á óvinsældir

Evrópuþingið í Brussel.
Evrópuþingið í Brussel. mbl.is/Hjörtur

Tilraunir til þess að varpa ljósi á það með hvaða hætti þingmenn á Evrópuþinginu verja mánaðarlegu ráðstöfunarfé sínu upp á rúmlega 4.400 evrur (um 550 þúsund íslenskrar krónur) virðast vera að stuðla að átökum innan þingsins samkvæmt frétt Euobserver.com.

Ráðstöfunarféð, sem ætlast er til að sé notað til að mynda í rekstur skrifstofu og síma- og póstkostnað og er skattfrjálst, bætist við föst mánaðarlaun þingmanna á þingi Evrópusambandsins sem nema 8.484 evrum eða rúmri einni milljón íslenskra króna.

Ennfremur segir í fréttinni að ekkert eftirlit sé með því með hvaða hætti ráðstöfunarfénu er raunverulega varið en ekki þurfi að skila inn neinum pappírum vegna þess. Tilkynningar hafi borist um að sumir þingmanna hafi varið fénu með öðrum hætti en ætlast sé til.

Hafi frjálsar hendur til að sinna störfum sínum

Þýski Evrópuþingmaðurinn Rainer Wieland fer fyrir starfshópi sem ætlað er að finna leiðir til þess að gera regluverkið í kringum greiðslur til þingmanna á Evrópuþinginu skýrara. Haft er eftir honum að tvær leiðir séu til skoðunar en að hann vildi ekki upplýsa hverjar þær væru.

Hins vegar er haft eftir Wieland að hugmyndir starfshópsins falli líklega ekki í góðan jarðveg hjá forsætisnefnd Evrópuþingsins sem samanstendur af forseta þingsins og varaforsetum þess. Gert er ráð fyrir að nefndin fari yfir málið um miðjan þennan mánuð.

Verði gerðar breytingar á reglunum munu þær ekki taka gildi fyrr en þegar næsta þing tekur til starfa. Wieland segist hins vegar mjög hlynntur greiðslu ráðstöfunarfjárins til Evrópuþingmanna. Það sé hluti af því að þeir hafi frjálsar hendur til að sinna störfum sínum.

Hvorki spurt spurninga né krafist kvittana

Fram kemur í fréttinni að greiðsla ráðstöfunarfjárins til þingmanna á Evrópuþinginu sé mjög umdeild og ekki síst þar sem það sé greitt beint inn á persónulega bankareikninga þeirra án þess að spurt sé nokkurra spurninga eða farið fram á kvittanir fyrir því hvernig því sé varið.

Hópur blaðamanna hefur reynt að fá Evrópuþingið til þess að upplýsa um útgjöld þingmanna með dómsmáli fyrir Evrópudómstólnum í Lúxemburg. Einnig er rætt í fréttinni við Klaus Welle, framkvæmdastjóra Evrópuþingsins, sem lagði grunninn að vinnu starfshópsins.

Rifjuð eru upp þau ummæli Welle í samtali við Euobserver.com í síðustu viku að fullt gagnsæi yrði ekki til þess að auka vinsældir Evrópuþingsins á meðal almennings. Bandaríska þingið veitti mestar slíkar upplýsingar og væri fyrir vikið óvinsælasta þingið í heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert