Friður ekki málið í dag heldur völd

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP

Markmið Evrópusambandsins í dag ætti að vera völd en ekki friður. Þetta sagði Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, í ræðu sem hann flutti á fimmtudaginn í Brussel, höfuðborg Belgíu, á ráðstefnu á vegum hugveitunnar European Policy Centre.

Blair, sem var leiðtogi breska Verkamannaflokksins um árabil, sagði ljóst að Bandaríkin væru minna áhugasöm um að sinna forystuhlutverki í heiminum í dag á sama tíma og ný stórveldi væru að koma fram á sjónarsviðið og evrópsk gildi ættu undir högg að sækja.

Fyrir vikið væri hið „rökrétta fyrir Evrópusambandið í dag ekki friður heldur völd.“ Lagði Blair enn fremur áherslu á mikilvægi þess að sambandið héldi Bretlandi innan vébanda sinna. Bretland og Evrópusambandið þyrfti að standa saman við þessar aðstæður.

„Bretland án Evrópusambandsins mun hafa minna vægi og áhrif og sambandið án Bretlands mun verða minna og skipta minna máli,“ sagði Blair. Forystumenn Evrópusambandsins yrðu að hjálpa Bretum að finna leið til þess að ganga aftur til liðs við sambandið. 

Sagði hann ástæður þess að Bretar kusu í þjóðaratkvæði 2016 að yfirgefa Evrópusambandið ekki vera bundnar við Bretland heldur væru sömu sjónarmið uppi um allt sambandið. Koma yrði á umbótum innan þess sem væri lykillinn að því að fá Breta til að skipta um skoðun.

Lagði Blair sérstaka áherslu á betri stjórn innflytjendamála í því sambandi þar sem tekið væri tillit til áhyggja almennings. Sagði hann ótta fólks vegna stöðu innflytjendamála raunverulegan og ekki alltaf byggja á fordómum.

Fréttavefurinn Euobserver.com greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka