Norður-Kórea tilbúin að ræða afvopnun

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu (3. f.v.), stillir hér sér upp …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu (3. f.v.), stillir hér sér upp með suðurkóresku sendinefndinni í forsetahöllinni í Pyongyang. AFP

Ráðamenn í Norður-Kóreu eru tilbúnir að ræða um að losa sig við kjarnavopn sín, svo framarlega sem hægt sé að tryggja öryggi ríkisins. Þetta hefur BBC eftir sendifulltrúum Suður-Kóreu, sem sl. tvo daga hafa verið í heimsókn í Norður-Kóreu til að funda með ráðamönnum þar í landi.

Yfirvöld í Suður-Kóreu segja málið hafa komið upp á fundi sendinefndarinnar með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, en nefndin fundaði með Kim í Pyongyang á mánudag.

Þá er norðurkóreski leiðtoginn einnig sagður vera opinn fyrir viðræðum við Bandaríkin og að frekari flugskeytatilraunum verði frestað að svo stöddu.

BBC segir að í fyrri skipti þegar Norður-Kórea hafi átt að draga úr kjarnorkuumsvifum sínum hafi ráðamenn í Norður-Kóreu ekki staðið við þau loforð.

Kim og Moon hittist á leiðtogafundi

Leiðtogar Norður- og Suður-Kóreu hafa einnig samþykkt að hittast á leiðtogafundi í næsta mánuði að sögn sendinefndarinnar. Verði af fundinum verður það í fyrsta skipti í rúman áratug sem leiðtogar Kóreuskagans hittast og í fyrsta skipti frá því að Kim Jong-un tók við völdum.

Kim Jong-il (t.h.), fyrrverandi leiðtogi Norður-Kóreu og faðir Kim Jong-un, …
Kim Jong-il (t.h.), fyrrverandi leiðtogi Norður-Kóreu og faðir Kim Jong-un, fundaði með Kim Dae-jung, þáverandi forseta Suður-Kóreu, árið 2000. AFP

Fundur þeirra Kim og Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, mun eiga sér stað í þorpinu Panmunjom á vígbúnum landamærum ríkjanna. Þá samþykktu ríkin tvö einnig að koma á beinu símasambandi milli leiðtoganna tveggja.

Þíðu varð vart í samskiptum ríkjanna fyrir Vetrarólympíuleikana sem haldnir voru í Suður-Kóreu í febrúar og ákváðu þau m.a. að senda sameiginlegt lið til keppni á leikunum og að hefja viðræður sín á milli.

Bandaríkin hafa áður sagt að þau séu aðeins tilbúin að hefja viðræður við Norður-Kóreu ef ráðamenn ríkisins lýsi sig reiðubúna að láta af kjarnavopnaáætlun sinni.

Eftir að fréttirnar af ferð sendinefndarinnar voru gerðar opinberar tjáði Donald Trump Bandaríkjaforseti sig um málið á Twitter.

„Heimurinn fylgist spenntur með,“ tísti Trump. „Þetta kunna að vera falskar vonir, en Bandaríkin eru tilbúin að koma inn af afli, í hvora áttina sem er!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert