Svíar eru reiðubúnir og vilja hýsa sögulegan fund Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, segir forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven.
„Ef við getum aðstoðað, sama á hvaða hátt, þá gerum við það,“ sagði Löfven að loknum fundi með með forsætisráðherra Lúxemborgar í gær.
Svíþjóð og Sviss eru þau ríki sem helst eru nefnd sem mögulegir fundarstaðir leiðtoganna tveggja.
Framkvæmdastjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) Mike Pompeo segir að Trump geri sér vel grein fyrir hættunni sem fylgi því að funda með Kim.
Trump sé ekki að gera þetta til þess að komast í sviðsljósið heldur vilji hann leysa vandamál. Trump hefur sjálfur sagt að á fundinum geti stærsti samningur heimsins litið dagsins ljós en gagnrýnendur vara við því að ef viðræðurnar ganga illa þá verði þjóðirnar tvær í verri stöðu en áður.
Sitjandi Bandaríkjaforseti hefur aldrei áður átt fund með leiðtoga Norður-Kóreu. Meðal þess sem verður rætt á fundinum er kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu og stendur til að fundurinn verði haldinn í maí.