„Ég fór út að leika mér í snjónum með frænkum mínum. Svo kom sprengja. Ég sá hendur frænku minnar fljúga fyrir framan mig. Ég missti báðar fæturna.“ Þetta segir Sami. Hann er bara barn. Kemur frá átakasvæðinu í Sýrlandi og býr nú í flóttamannabúðum í Jórdaníu Vitnað er í Sami og fleiri sýrlensk börn sem hafa þurft að flýja hryllilegt stríðið í heimalandi, í nýlegri skýrslu Unicef.
Samkvæmt skýrslunni eiga börn í meiri hættu enn nokkurn tíma fyrr á að skaðast eða láta lífið stríðinu sem staðið hefur á áttunda ár. Helmingi fleiri börn voru drepin í Sýrlandi árið 2017 en árið þar á undan.
„Árið 2017 varð hræðilegt ofbeldið fleiri börnum að bana en nokkru sinni fyrr. 50 prósent fleirum en árið 2016,“ segir þar. Jafnframt kemur fram að miðað við hvernig árið 2018 hafi byrjað þá verði það enn verra.
Yfir 200 börn hafa verið drepin í sprengjuárásum stjórnarhersins og uppreisnarmanna í Austur-Ghouta frá því í febrúar, samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökunum Syrian Obseratory for Human Rights. Börn eru um einn fimmti almennra borgara sem hefur látist.
Fötluð börn „eiga í sérstaklega mikilli hættu á að vera vanrækt eða útskúfuð á meðan átökin halda áfram,“ segir Geert Cappelaere, svæðisstjóri Unicef.
Talið er að stríðið hafi áhrif á 3,3 milljónir barna. Þau séu í stöðugri hættu á að verða fyrir sprengjuregni eða skotárásum. Árið 2017 urðu til að mynda á annan tug skóla fyrir sprengjuárás.