Engin tengsl er að finna milli stjórnvalda í Moskvu og kosningabaráttu Donalds Trumps í forsetakosningunum árið 2016. Þetta er meðal þess sem kemur fram í uppkasti skýrslu sem repúblikanar í leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafa gefið út.
Í uppkastinu má finna nokkur dæmi um „slæma dómgreind“ og „óviðeigandi fundi“ meðal fulltrúa kosningabaráttu Trumps og stjórnvalda í Rússlandi, en engin merki má finna um meint samráð að sögn Mike Conaway, þingmanns Repúblikanaflokksins, sem hefur farið fyrir rannsókn nefndarinnar frá því í fyrravor.
Conaway segir að fundurinn umdeildi í júní 2016 í Trump-turninum, þar sem Donald Trump yngri, Jared Kushner, tengdasonur forsetans, og Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri forsetans, funduðu með rússneska lögmanninum Nataliu Veselnitskaya, hefði aldrei átt að fara fram. „En við finnum ekki neitt sem leiðir til þess að samráð hafi átt sér stað,“ segir Conaway í samtali við The Wall Street Journal.
Uppkast skýrslunnar hefur ekki verið kynnt demókrötum í nefndinni að svo stöddu og býst Conaway við að gerðar verði víðtækar breytingar á innihaldi hennar þegar demókratar fá hana í hendurnar.