Mjög er tekist á um það í norskri umræðu hvort dóms- og innflytjendamálaráðherra landsins, Sylvi Listhaug, hafi gengið of langt í Facebook-færslu í síðustu viku. Þar sakar hún Verkamannaflokkinn um að taka rétt hryðjuverkamanna fram yfir þjóðaröryggi, líkt og fjallað var um á mbl.is um helgina.
Margir eru ánægðir með færsluna en fleiri óánægðir og hafa margir skrifað skoðun sína á ummælum ráðherrans. Til að mynda að það sé hennar hlutverk að fara að lögum ekki brjóta á mannréttindum fólks ofl.
Með færslunni vildi Listhaug lýsa andstöðu sinni með að Verkamannaflokkurinn, með formann flokksins, Jonas Gahr Støre, í fararbroddi, hafi greitt atkvæði gegn því að ríkisborgararéttur og vegabréf yrðu tekin af Norðmönnum sem sakaðir væru um að hafa barist með vígasamtökum án þess að búið væri að dæma þá fyrir slíkt.
„Við viljum afturkalla vegabréf og ríkisborgararétt erlendra vígamanna og hryðjuverkamanna hratt og fast! Verkamannaflokkurinn vill greiða atkvæði gegn þvi. Við getum ekki setið hjá með hendur í skauti í baráttunni gegn hryðjuverkum!,“ skrifar Listhaug á Facebook.
Støre hefur fordæmt skilaboðin sem dómsmálaráðherrann sendir út en skilaboðin setti hún á Facebook sama dag og kvikmynd um hryðjuverk Anders Breivik var frumsýnd í norskum kvikmyndahúsum. Flestir þeirra sem féllu fyrir hendi hans voru félagar í ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins sem voru í sumarbúðum í Utøya.
„Við höfum verið fórnarlömb hryðjuverks og við berjumst gegn hryðjuverkum. Að Listhaug skuli halda þessu fram er svo ósannsgjarnt og særandi á sama tíma og það veldur vonbrigðum að þetta komi frá norskum dómsmálaráðherra, sagði Støre í viðtali við norska ríkisútvarpið.
Forsætisráðherra, Erna Solberg, hefur einnig gagnrýnt færsluna hjá Listhaug. Solberg gagnrýnir einnig hvernig Listhaug noti þessa mynd og þennan tón til að ráðast á Verkamannaflokkinn. Með því gleymist það sem málið snúist um - baráttunni gegn hryðjuverkum.
Formaður Framfaraflokksins og flokkssystir Listhaug, Siv Jensen, neitar að tjá sig um færsluna en hún er fjármálaráðherra. Segir hún að umræðan snerti ekki fjármál ríkisins á nokkurn hátt og mikilvægt sé að ræða áfram um málefni innflytjenda og aðlögun.
11 þúsund manns hafa lýst skoðun sinni á færslunni og henni hefur verið deilt yfir 3 þúsund sinnum en Listhaug hefur ekki viljað tjá sig um málið við fjölmiðla.