Breskir ráðamenn munu sniðganga HM

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breskir embættismenn, bæði ráðherrar og konungsfjölskyldan, munu sniðganga heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi næsta sumar.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti þetta á breska þinginu í dag um leið og hún staðfesti að 23 rússneskum sendiráðsmönnum verði vísað úr landi. Auk þess sagði hún að Bretar munu beita öðrum aðferðum og þvingunum í garð Rússa og er þessi ákvörðun varðandi HM hlut af því.

Ástæðan er sú að Rússar hafa ekki gefið trúverðug svör um aðkomu sína að morðtilræðinu á Skripal-feðgininum, sem voru fórnarlömb eiturefnaárásar í Bretlandi í byrjun mánaðarins eins og ítarlega hefur verið fjallað um á mbl.is.

Enska knattspyrnusambandið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem ákvörðun May var ítrekuð. Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, var spurður að því hvort enska knattspyrnulandsliðið ætti einnig að neita að fara á HM. Johnson sagði að það myndi engu skila heldur aðeins valda milljónum stuðningsmanna Englands vonbrigðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert