Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, bauðst í dag til að segja af sér en stjórn landsins hefur verið undir mikilli pressu eftir að rannsóknarblaðamaðurinn Jan Kuciak var tekinn af lífi á heimili sínu í Bratislava ásamt unnustu sinni í lok febrúar.
„Ég fór til forsetans í dag og sagði honum að ég væri tilbúinn að stíga til hliðar,“ sagði Fico nú síðdegis.
„Ef forsetinn samþykkir það er ég tilbúinn að hætta sem forsætisráðherra á morgun,“ bætti hann við.
Kuciak hafði verið að rannsaka spillingarmál sem tengdist Sósíal-demókrataflokknum og ítölsku mafíunni, en hann var drepinn áður en umfjöllunin fór til birtingar.
Lögreglan segir dauða Kubiak „mjög líklega“ tengjast umfjöllunarefni hans. Yfirvöld hafa handtekið fleiri Ítali úr viðskiptalífinu sem voru nafngreindir af Kuciak, en þeir voru látnir lausir vegna skorts á sönnunargögnum.