Margir fengið að fjúka hjá Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Rúmur þrettán og hálfur mánuður er liðinn síðan Donald Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna og á þeim tíma hafa talsverðar mannabreytingar orðið ekki síst í hans innsta hring. Síðast var Rex Tillerson vikið úr embætti utanríkisráðherra, en hann frétti fyrst af málinu þegar aðstoðarmaður hans benti honum á að Trump hefði greint frá því á Twitter.

Mike Pompeo verður nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna en talið er að hann standi nær áherslum Trumps í utanríkismálum. Rifjuð hafa verið upp þau meintu ummæli Tillersons, sem var áður framkvæmdastjóri olíufélagsins ExxonMobil, á síðasta ári að Trump væri hálfviti. Talsmenn Tillersons þvertóku hins vegar fyrir að þau ummæli hefðu fallið.

Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Fyrr í þessum mánuði sagði Gary Cohn upp störfum sem efnahagsráðgjafi Trumps vegna ágreinings um viðskiptastefnu forsetans sem nýverið kynnti áform um að leggja verndartolla á innflutt stál og ál. Hope Hicks lét af störfum sem samskiptastjóri Hvíta hússins í lok febrúar en hún var fjórði samskiptastjóri Trumps frá því að hann tók við embætti.

Rob Porter lét af störfum sem háttsettur ráðgjafi Trumps í byrjun febrúar eftir að tvær fyrrverandi eiginkonur hans sökuðu hann um heimilisofbeldi. Steve Bannon var rekinn úr starfi sínu sem helsti ráðgjafi Trumps í ágúst. Reince Priebus var látinn taka pokann sinn í júlímánuði en hann hafði starfað sem skrifstofustjóri Hvíta hússins.

Steve Bannon.
Steve Bannon. AFP

Sennilega hefur enginn verið eins stutt í embætti og Anthony Scaramucci sem tók við sem samskiptastjóri Hvíta hússins í júlí og var rekinn eftir ellefu daga. Sean Spicer var sömuleiðis rekinn úr embætti fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins í júlí. Walter Shaub, yfirmaður siðaskrifstofu ríkisstjórnarinnar, lét einnig af embætti í júlí eftir ágreining við Trump.

Michael Short sagði ennfremur upp störfum í júlí en hann hafði starfað sem aðstoðarfjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins. James Comey var rekinn úr embætti forstjóra alríkislögreglunnar FBI í maí en stofnunin hafði undir hans stjórn verið að rannsaka meint tengsl kosningaherferðar Trumps við rússnesk stjórnvöld.

Michael Dubke hætti sem samskiptastjóri Hvíta hússins í maí. Michael Flynn lét af störfum sem þjóðaröryggisráðgjafi í febrúar eftir að hafa viðurkennt að hann hefði fundað með sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum um viðskiptaþvinganir gegn Rússum.

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps.
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert