Stephen Hawking látinn

Stephen Hawking er látinn 76 ára að aldri.
Stephen Hawking er látinn 76 ára að aldri. AFP

Breski eðlisfræðingurinn og heimsfræðingurinn Stephen Hawking er látinn 76 ára að aldri. Að sögn fjölskyldu hans lést hann í svefni á heimili sínu í  Cambridge í nótt. 

Í yfirlýsingu sem börn hans, Lucy, Robert og Tim sendu frá sér í nótt segir: „Við erum full sorgar yfir því að okkar heittelskaði faðir hafi látist í dag. Hann var stórkostlegur vísindamaður og einstakur maður en starf hans og arfur mun lifa áfram í mörg ár.“ 

Þau lofa hugrekki hans og þrákelni og segja að snilld hans og kímnigáfa hafi veitt fólki innblástur um allan heim. 

„Hann sagði einn sinn að alheimurinn yrði ekki stór ef hann væri ekki heimili fólksins sem þú elskar. Við munum ávalt sakna hans.“

Jó­hann Jó­hanns­son tón­skáld, sem lést í síðasta mánuði,  var til­nefnd­ur til Óskar­sverðlauna fyr­ir kvik­mynd­ina The Theory of Everything árið 2014 en kvikmyndin er um ævi Hawkins. Jó­hann hlaut Gold­en Globe-verðlaun árið 2014 fyr­ir tón­list­ina í The Theory of Everything.

Stephen Hawking á ráðstefnu í Hong Kong fyrir stuttu.
Stephen Hawking á ráðstefnu í Hong Kong fyrir stuttu. AFP

Tími var nokkuð sem doktorsneminn Stephen Hawking átti ekki að hafa, þegar hann greindist með blandaða hreyfitaugahrörnun, sem einnig er þekkt sem ALS, árið 1963. Hann var þá 21 árs og spáðu læknar því að Hawking yrði örendur innan tveggja ára. Raunin varð þó önnur. 

Á sama tíma og heimurinn verður dimmari við fráfall þessa mikla vísindamanns lýsist upp heimurinn á samfélagsmiðlum en fjölmargir hafa minnst Hawking á Twitter í nótt. Þar á meðal Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins, En Donald Trump forseti Bandaríkjanna sem er vanur því að tjá sig um flest allt hefur ekki enn tjáð sig um andlát Hawking en Hawking er einn þeirra fjölmörgu vísindamanna sem hafa gagnrýnt stefnu forsetans í loftlagsmálum.




Stefán Gunnar Sveinsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifaði grein um Hawking í janúar í fyrra þegar vísindamaðurinn fagnaði 75 ára afmæli:

„Stephen William Hawking fæddist hinn 8. janúar 1942, sonur læknishjónanna Frank og Isobel Hawking. Fjölskyldan hlúði vel að námi sonarins þrátt fyrir þröngan efnahag, en Hawking hefur oft sagt að hann hafi verið latur við nám framan af ævi sinni. Hann sýndi þó snemma getu og áhuga á stærðfræði og hugðist leggja hana fyrir sig þegar tíminn kom að háskólanámi.

Frank vildi að sonur sinn færi í University College í Oxford eins og hann sjálfur hafði gert, og hvatti Stephen til þess að verða læknir, þar sem fá störf væru fyrir stærðfræðinga. Hawking fylgdi vilja föður síns að hálfu, hann samþykkti að fara í University College, en í staðinn fyrir læknisnám brá hann sér í eðlis- og efnafræði.

Hawking leiddist í Oxford. Honum fannst námið of auðvelt og hann var yngri en flestir hinna. Hawking gerði sér sérstakt far um að falla í hópinn og tók meðal annars þátt í róðrarkeppnum innan skólans. Allt var það á kostnað námsins. Námsletin kom honum þó í koll að lokum, og ljóst var að hann myndi þurfa að útskrifast með fyrstu einkunn til þess að komast í draumanám sitt í heimsfræði við Cambridge.

Hann svaf illa aðfaranótt lokaprófsins og útkoman var á mörkum fyrstu og annarrar einkunnar. Hawking neyddist því til að þreyta munnlegt próf til þess að skera úr um það hvoru megin hryggjar hann ætti að lenda. Hawking óttaðist að hann hefði á sér óorð meðal kennaranna fyrir leti, þannig að þegar hann var spurður um framtíðaráætlanir sínar sagði hann: „Fái ég fyrstu einkunn fer ég til Cambridge, en ef þið gefið mér aðra verð ég hér áfram. Ég geri því fastlega ráð fyrir að þið munið gefa mér fyrstu einkunn.“ Hvort sem það var vegna þess að kennararnir vildu ólmir losna við hann eða ekki varð Hawking að ósk sinni.

Barack Obama þáverandi forseti sést hér veita Stephen Hawking frelsisorðuna …
Barack Obama þáverandi forseti sést hér veita Stephen Hawking frelsisorðuna árið 2009. AFP

Sjúkdómurinn kemur fram

En ský dró brátt fyrir sólu. Á lokaári sínu í Oxford hafði Hawking orðið var við skerta hreyfigetu og aukinn klaufaskap. Sjúkdómurinn ágerðist uns að lokum Hawking leitaði til lækna árið 1963, eins og fyrr var getið, og greindist með hreyfitaugahömlun.

Greiningin var Hawking mikið áfall. Hann lagðist í þunglyndi og sá enga ástæðu til þess að leggja sig fram við námið, þar sem hann yrði að öllum líkindum ekki langlífur. Leiðbeinandi hans, Dennis William Schiama, sannfærði hann hins vegar um að snúa aftur til starfa.

Hreyfitaugahrörnun Hawkings ágerðist með árunum en andlátsspár læknanna reyndust rangar. Undir lok sjöunda áratugarins var Hawking þó kominn í rafmagnshjólastól eftir að hafa gengið lengi á hækjum, eftir mikið japl, jaml og fuður. Hann fékk fljótlega á sig orð í Cambridge fyrir að vera mikill ökuþór, og máttu nemendur jafnt sem samkennarar vara sig þegar Hawking var á ferð.

Á sama tíma varð erfiðara og erfiðara að skilja Hawking, og þurfti túlk til þess að flytja fyrirlestra hans. Eftir að Hawking fékk alvarlega lungnabólgu um miðjan níunda áratuginn neyddust læknar til þess að gera rauf á barka hans, og missti Hawking þá málið algjörlega. Til þess að bæta upp fyrir það fékk Hawking sérstakt tölvuforrit, „Equalizer“, árið 1986, sem gerir honum kleift að tjá sig með hjálp sérstakrar tölvuraddar. Hin nýja „rödd“ Hawkings talaði með skrýtnum hreim og hrynjanda en var þó mikil framför fyrir Hawking. Fyrir vikið hefur hann neitað að „skipta um“ rödd, jafnvel þó að honum hafi staðið það til boða. Má segja að hin sérstæða tölvurödd Hawkings sé orðin hluti af „vörumerki“ hans meðal almennings.

Áhrifum Hawkings á eðlisfræðina hefur verið líkt við þau sem Isaac Newton og Albert Einstein höfðu á sínum tíma, enda gegndi Hawking á sínum tíma sömu prófessorsstöðu við Cambridge og Newton gerði forðum. Helsta framlag Hawkings var að sanna það að Miklihvellur hefði átt sér stað fyrir um 14 milljörðum ára, auk þess sem eftir hann liggur mikið af fræðum um svarthol, tilvist þeirra og eðli. Hawking hefur sett fram kenningar um að svarthol gefi frá sér geislun, sem aftur leiði til þess að líftími þeirra sé takmarkaður.

Hawking er þó ekki óumdeildur eða óskeikull, og átti hann til dæmis í ritdeilu um margra ára skeið um tilvist Higgs-bóseindarinnar, sem Hawking sagði að væri ekki til, og myndi því ekki finnast. Önnur varð þó raunin, þar sem bóseindin fannst árið 2012.

AFP

 Saga tímans færð í letur

Hawking er þó líklega þekktastur fyrir framlag sitt til þess að gera vísindi og heimsfræði aðgengileg almenningi. Árið 1988 skrifaði Hawking bókina A Brief History of Time, sem þýdd hefur verið á íslensku sem Saga tímans. Í bókinni reyndi hann að útskýra á aðgengilegan hátt upphaf alheimsins og sögu hans, allt frá Miklahvelli.

Bókin varð fljótt að vinsælustu vísindabók sem gefin hefur verið út. Hún gerði Hawking umsvifalaust að heimsþekktum einstaklingi og hefur hann síðan birst í fjölda sjónvarpsþátta, þar á meðal Star Trek, Simpsons og The Big Bang Theory, ávallt sem hann sjálfur.

Hawking er tvískilinn, en samband hans við Jane, fyrri konu hans, var efniviður kvikmyndarinnar The Theory of Everything, sem kom út í hitteðfyrra. Saman áttu þau þrjú börn, Robert, Lucy og Timothy.

Stephen Hawking.
Stephen Hawking. AFP

Árin tvö sem Hawking voru gefin árið 1963, eru nú orðin að fimmtíu og fjórum. Á þeim tíma hefur hann gert meira en flestir aðrir til þess að breyta skilningi okkar á alheiminum og því hvert leið mannkynsins liggur, en Hawking hefur varað við því að mannkynið gæti tortímt sér á næstu hundrað árum og að helst þurfi að bregðast við núna, hvort sem litið er til gróðurhúsaáhrifa, kjarnorkuvopna, eða hættunnar af gervigreind. Enginn veit enda betur en hann að tíminn fram undan er dýrmætur,“ segir í grein Stefáns Gunnars sem birtist í Morgunblaðinu 8. janúar 2017.

Stephen Hawking við kynningu áLeverhulme Centre for the Future of …
Stephen Hawking við kynningu áLeverhulme Centre for the Future of Intelligence (CFI) í háskólanum í Cambridge árið 2016. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert