Stephen Hawking látinn

Stephen Hawking er látinn 76 ára að aldri.
Stephen Hawking er látinn 76 ára að aldri. AFP

Breski eðlis­fræðing­ur­inn og heims­fræðing­ur­inn Stephen Hawk­ing er lát­inn 76 ára að aldri. Að sögn fjöl­skyldu hans lést hann í svefni á heim­ili sínu í  Cambridge í nótt. 

Í yf­ir­lýs­ingu sem börn hans, Lucy, Robert og Tim sendu frá sér í nótt seg­ir: „Við erum full sorg­ar yfir því að okk­ar heitt­elskaði faðir hafi lát­ist í dag. Hann var stór­kost­leg­ur vís­indamaður og ein­stak­ur maður en starf hans og arf­ur mun lifa áfram í mörg ár.“ 

Þau lofa hug­rekki hans og þrákelni og segja að snilld hans og kímni­gáfa hafi veitt fólki inn­blást­ur um all­an heim. 

„Hann sagði einn sinn að al­heim­ur­inn yrði ekki stór ef hann væri ekki heim­ili fólks­ins sem þú elsk­ar. Við mun­um ávalt sakna hans.“

Jó­hann Jó­hanns­son tón­skáld, sem lést í síðasta mánuði,  var til­nefnd­ur til Óskar­sverðlauna fyr­ir kvik­mynd­ina The Theory of Everything árið 2014 en kvik­mynd­in er um ævi Hawk­ins. Jó­hann hlaut Gold­en Globe-verðlaun árið 2014 fyr­ir tón­list­ina í The Theory of Everything.

Stephen Hawking á ráðstefnu í Hong Kong fyrir stuttu.
Stephen Hawk­ing á ráðstefnu í Hong Kong fyr­ir stuttu. AFP

Tími var nokkuð sem doktorsnem­inn Stephen Hawk­ing átti ekki að hafa, þegar hann greind­ist með blandaða hreyfitauga­hrörn­un, sem einnig er þekkt sem ALS, árið 1963. Hann var þá 21 árs og spáðu lækn­ar því að Hawk­ing yrði ör­end­ur inn­an tveggja ára. Raun­in varð þó önn­ur. 

Á sama tíma og heim­ur­inn verður dimm­ari við frá­fall þessa mikla vís­inda­manns lýs­ist upp heim­ur­inn á sam­fé­lags­miðlum en fjöl­marg­ir hafa minnst Hawk­ing á Twitter í nótt. Þar á meðal Don­ald Tusk, for­seti Evr­ópuráðsins, En Don­ald Trump for­seti Banda­ríkj­anna sem er van­ur því að tjá sig um flest allt hef­ur ekki enn tjáð sig um and­lát Hawk­ing en Hawk­ing er einn þeirra fjöl­mörgu vís­inda­manna sem hafa gagn­rýnt stefnu for­set­ans í loft­lags­mál­um.




Stefán Gunn­ar Sveins­son blaðamaður á Morg­un­blaðinu skrifaði grein um Hawk­ing í janú­ar í fyrra þegar vís­indamaður­inn fagnaði 75 ára af­mæli:

„Stephen William Hawk­ing fædd­ist hinn 8. janú­ar 1942, son­ur lækn­is­hjón­anna Frank og Iso­bel Hawk­ing. Fjöl­skyld­an hlúði vel að námi son­ar­ins þrátt fyr­ir þröng­an efna­hag, en Hawk­ing hef­ur oft sagt að hann hafi verið latur við nám fram­an af ævi sinni. Hann sýndi þó snemma getu og áhuga á stærðfræði og hugðist leggja hana fyr­ir sig þegar tím­inn kom að há­skóla­námi.

Frank vildi að son­ur sinn færi í Uni­versity Col­l­e­ge í Oxford eins og hann sjálf­ur hafði gert, og hvatti Stephen til þess að verða lækn­ir, þar sem fá störf væru fyr­ir stærðfræðinga. Hawk­ing fylgdi vilja föður síns að hálfu, hann samþykkti að fara í Uni­versity Col­l­e­ge, en í staðinn fyr­ir lækn­is­nám brá hann sér í eðlis- og efna­fræði.

Hawk­ing leidd­ist í Oxford. Hon­um fannst námið of auðvelt og hann var yngri en flest­ir hinna. Hawk­ing gerði sér sér­stakt far um að falla í hóp­inn og tók meðal ann­ars þátt í róðrar­keppn­um inn­an skól­ans. Allt var það á kostnað náms­ins. Námslet­in kom hon­um þó í koll að lok­um, og ljóst var að hann myndi þurfa að út­skrif­ast með fyrstu ein­kunn til þess að kom­ast í drauma­nám sitt í heims­fræði við Cambridge.

Hann svaf illa aðfaranótt loka­prófs­ins og út­kom­an var á mörk­um fyrstu og annarr­ar ein­kunn­ar. Hawk­ing neydd­ist því til að þreyta munn­legt próf til þess að skera úr um það hvoru meg­in hryggj­ar hann ætti að lenda. Hawk­ing óttaðist að hann hefði á sér óorð meðal kenn­ar­anna fyr­ir leti, þannig að þegar hann var spurður um framtíðaráætlan­ir sín­ar sagði hann: „Fái ég fyrstu ein­kunn fer ég til Cambridge, en ef þið gefið mér aðra verð ég hér áfram. Ég geri því fast­lega ráð fyr­ir að þið munið gefa mér fyrstu ein­kunn.“ Hvort sem það var vegna þess að kenn­ar­arn­ir vildu ólm­ir losna við hann eða ekki varð Hawk­ing að ósk sinni.

Barack Obama þáverandi forseti sést hér veita Stephen Hawking frelsisorðuna …
Barack Obama þáver­andi for­seti sést hér veita Stephen Hawk­ing frels­isorðuna árið 2009. AFP

Sjúk­dóm­ur­inn kem­ur fram

En ský dró brátt fyr­ir sólu. Á loka­ári sínu í Oxford hafði Hawk­ing orðið var við skerta hreyfigetu og auk­inn klaufa­skap. Sjúk­dóm­ur­inn ágerðist uns að lok­um Hawk­ing leitaði til lækna árið 1963, eins og fyrr var getið, og greind­ist með hreyfitauga­höml­un.

Grein­ing­in var Hawk­ing mikið áfall. Hann lagðist í þung­lyndi og sá enga ástæðu til þess að leggja sig fram við námið, þar sem hann yrði að öll­um lík­ind­um ekki lang­líf­ur. Leiðbein­andi hans, Denn­is William Schiama, sann­færði hann hins veg­ar um að snúa aft­ur til starfa.

Hreyfitauga­hrörn­un Hawk­ings ágerðist með ár­un­um en and­láts­spár lækn­anna reynd­ust rang­ar. Und­ir lok sjö­unda ára­tug­ar­ins var Hawk­ing þó kom­inn í raf­magns­hjóla­stól eft­ir að hafa gengið lengi á hækj­um, eft­ir mikið japl, jaml og fuður. Hann fékk fljót­lega á sig orð í Cambridge fyr­ir að vera mik­ill ökuþór, og máttu nem­end­ur jafnt sem sam­kenn­ar­ar vara sig þegar Hawk­ing var á ferð.

Á sama tíma varð erfiðara og erfiðara að skilja Hawk­ing, og þurfti túlk til þess að flytja fyr­ir­lestra hans. Eft­ir að Hawk­ing fékk al­var­lega lungna­bólgu um miðjan ní­unda ára­tug­inn neydd­ust lækn­ar til þess að gera rauf á barka hans, og missti Hawk­ing þá málið al­gjör­lega. Til þess að bæta upp fyr­ir það fékk Hawk­ing sér­stakt tölvu­for­rit, „Equalizer“, árið 1986, sem ger­ir hon­um kleift að tjá sig með hjálp sér­stakr­ar tölvuradd­ar. Hin nýja „rödd“ Hawk­ings talaði með skrýtn­um hreim og hrynj­anda en var þó mik­il fram­för fyr­ir Hawk­ing. Fyr­ir vikið hef­ur hann neitað að „skipta um“ rödd, jafn­vel þó að hon­um hafi staðið það til boða. Má segja að hin sér­stæða tölvurödd Hawk­ings sé orðin hluti af „vörumerki“ hans meðal al­menn­ings.

Áhrif­um Hawk­ings á eðlis­fræðina hef­ur verið líkt við þau sem Isaac Newt­on og Al­bert Ein­stein höfðu á sín­um tíma, enda gegndi Hawk­ing á sín­um tíma sömu pró­fess­ors­stöðu við Cambridge og Newt­on gerði forðum. Helsta fram­lag Hawk­ings var að sanna það að Mikli­hvell­ur hefði átt sér stað fyr­ir um 14 millj­örðum ára, auk þess sem eft­ir hann ligg­ur mikið af fræðum um svart­hol, til­vist þeirra og eðli. Hawk­ing hef­ur sett fram kenn­ing­ar um að svart­hol gefi frá sér geisl­un, sem aft­ur leiði til þess að líf­tími þeirra sé tak­markaður.

Hawk­ing er þó ekki óum­deild­ur eða óskeik­ull, og átti hann til dæm­is í rit­deilu um margra ára skeið um til­vist Higgs-bóseind­ar­inn­ar, sem Hawk­ing sagði að væri ekki til, og myndi því ekki finn­ast. Önnur varð þó raun­in, þar sem bóseind­in fannst árið 2012.

AFP

 Saga tím­ans færð í let­ur

Hawk­ing er þó lík­lega þekkt­ast­ur fyr­ir fram­lag sitt til þess að gera vís­indi og heims­fræði aðgengi­leg al­menn­ingi. Árið 1988 skrifaði Hawk­ing bók­ina A Bri­ef History of Time, sem þýdd hef­ur verið á ís­lensku sem Saga tím­ans. Í bók­inni reyndi hann að út­skýra á aðgengi­leg­an hátt upp­haf al­heims­ins og sögu hans, allt frá Mikla­hvelli.

Bók­in varð fljótt að vin­sæl­ustu vís­inda­bók sem gef­in hef­ur verið út. Hún gerði Hawk­ing um­svifa­laust að heimsþekkt­um ein­stak­lingi og hef­ur hann síðan birst í fjölda sjón­varpsþátta, þar á meðal Star Trek, Simp­sons og The Big Bang Theory, ávallt sem hann sjálf­ur.

Hawk­ing er tví­skil­inn, en sam­band hans við Jane, fyrri konu hans, var efniviður kvik­mynd­ar­inn­ar The Theory of Everything, sem kom út í hitteðfyrra. Sam­an áttu þau þrjú börn, Robert, Lucy og Timot­hy.

Stephen Hawking.
Stephen Hawk­ing. AFP

Árin tvö sem Hawk­ing voru gef­in árið 1963, eru nú orðin að fimm­tíu og fjór­um. Á þeim tíma hef­ur hann gert meira en flest­ir aðrir til þess að breyta skiln­ingi okk­ar á al­heim­in­um og því hvert leið mann­kyns­ins ligg­ur, en Hawk­ing hef­ur varað við því að mann­kynið gæti tor­tímt sér á næstu hundrað árum og að helst þurfi að bregðast við núna, hvort sem litið er til gróður­húsa­áhrifa, kjarn­orku­vopna, eða hætt­unn­ar af gervi­greind. Eng­inn veit enda bet­ur en hann að tím­inn fram und­an er dýr­mæt­ur,“ seg­ir í grein Stef­áns Gunn­ars sem birt­ist í Morg­un­blaðinu 8. janú­ar 2017.

Stephen Hawking við kynningu áLeverhulme Centre for the Future of …
Stephen Hawk­ing við kynn­ingu áLever­hulme Centre for the Fut­ure of In­telli­gence (CFI) í há­skól­an­um í Cambridge árið 2016. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert