Sprengjum rignir enn eftir sjö ára stríð

Faðir heldur á særðu barni sínu eftir að hafa komist …
Faðir heldur á særðu barni sínu eftir að hafa komist frá Ghouta í gær. AFP

Í dag eru liðin sjö ár frá því að stríðið í Sýrlandi braust út. Það eru ekki aðeins Sýrlendingar sem berjast innan landamæranna heldur hafa stórveldi á borð við Rússa og Tyrki gert sig gildandi, ýmist í samstarfi við hópa uppreisnarmanna eða heri Bashars al-Assad forseta. 

Þannig hafa Tyrkir í bandalagi við hóp uppreisnarmanna umkringt borgina Afrin í norðurhluta landsins í þeim tilgangi að hrekja Kúrda frá völdum. Á sama tíma æðir stjórnarherinn fram með Rússa sér við hlið í Ghouta-héraði austur af höfuðborginni Damaskus.

Blóðsúthellingarnar hafa verið gríðarlegar frá því að stríðið braust út þann 15. mars 2011 erAssad forseti stöðvaði með valdi að mestu friðsamar mótmælagöngur. Síðan þá hefur nær öll þjóðin verið berskjölduð fyrir árásum og heilu landsvæðin orðin nánast rústir einar. Að auki hafa víglínurnar orðið flóknari og kröfur um vopnahlé, m.a. frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, hafa engu skilað.

Lík tveggja barna á bráðabirgðasjúkrahúsi í þorpinu Kafr Batna í …
Lík tveggja barna á bráðabirgðasjúkrahúsi í þorpinu Kafr Batna í austurhluta Ghouta-héraðs í dag. AFP

Hörðustu átökin nú eru í Afrin og Ghouta þar sem sprengjuárásir hafa verið stöðugar. Í Afrin, þar sem erlendur innrásarher fer um í óþökk stjórnvalda Sýrlands, er ástandið hvað flóknast. Talið er að þegar þeim orrustum ljúki verði landamæri jafnvel önnur en þau eru í dag. 

Í gær, miðvikudag, komust svo hermenn Rússa og Assads í lykilstöðu í Ghouta, eitt síðasta vígi uppreisnarmanna í landinu, eftir linnulausar sprengjuárásir. 

Frá því að áhlaupið á Ghouta hófst þann 18. febrúar hafa yfir 1.220 almennir borgarar fallið. Um fimmtungur hinna látnu eru börn. 

Alþjóðasamfélaginu, undir forystu Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðs þeirrar stofnunar, hefur ítrekað mistekist að koma á vopnahléi í þessu mannskæðasta stríði aldarinnar. Yfir 350 þúsund manns hafa týnt lífi frá því að stríðið braust út og meira en helmingur hinnar 20 milljóna manna þjóðar hefur flúið heimili sín. 

Fyrir nokkrum mánuðum tókst að koma vígamönnum Ríkis íslams frá völdum á svæðum sem þeir höfðu lagt undir sig í Sýrlandi og Írak. En í strax í kjölfar þess hófst valdabarátta um yfirráð yfir landsvæðum Ríkis íslams í norðurhluta Sýrlands. Þar eru Tyrkir nú að gera sig breiða undir því yfirskyni að Varnarsveitir Kúrda, sem hafa farið með völd á svæðinu, séu hryðjuverkasamtök með tengsl við Kúrda í Tyrklandi sem hafa í þrjá áratugi barist fyrir sjálfstæði sínu þar í landi. Mannfórnin í  þessu áhlaupi Tyrklandsher er mikil. 

Hópur Kúrda fagnar því að hafa komist frá Afrin-borg í …
Hópur Kúrda fagnar því að hafa komist frá Afrin-borg í norðurhluta Sýrlands þar sem Tyrkir sitja nú um borgina og ætla sér að ráðast þar inn. AFP

Kúrdar nutu hernaðarlegs stuðnings Bandaríkjamanna við að ná yfirráðum úr höndum Ríkis íslams í hinu olíuauðuga landssvæði í Norður-Sýrlandi. Svæðið er um 30% af flatarmáli Sýrlands. Tyrkir með stuðningi ákveðinna uppreisnarhópa hafa svo síðustu vikur náð hluta þess svæðis, við landamærin að Tyrklandi á sitt vald. Ljóst er að þeir ætla sér meira.

Innrás Tyrkja hófst þann 20. janúar í Afrin-héraði. Þeir hófu svo í byrjun vikunnar að umkringja Afrin-borg og hétu því í gær því verki yrði lokið fyrir kvöldið, eins og það var orðað af heimildarmanni AFP-fréttastofunnar.

„Það hljómar eins og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sé að láta sig dreyma þegar hann segir að Afrin falli í kvöld,“ segir Redur Khalil, leiðtogi innan Varnarsveita Kúrda (YPG).

Ofan á þetta allt saman hafa svo vopnaðir hópar sem styðja Assad forseta barist síðustu vikur gegn Tyrkjunum í Afrin og svöruðu þannig hjálparkalli Kúrda. Þannig hafa víglínurnar orðið enn óskýrari: Kúrdar í einhvers konar bandalagi við stuðningsmenn Assads og uppreisnarmenn í samvinnu við Tyrki.

Í gær féllu að minnsta kosti tíu almennir borgarar íAfrin í sprengjuárásum Tyrkja. Á meðal hinna látnu voru fjögur börn.

Börn á bíl sem flutti þau frá Afrin-borg í Sýrlandi.
Börn á bíl sem flutti þau frá Afrin-borg í Sýrlandi. AFP

Mannúðar- og eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights telja að herir Tyrkja hafi náð um 70% landsvæðisins úr norðri úr höndum Kúrda. 

Í útjaðri höfuðborgarinnar Damaskus, mörg hundruð kílómetrum suður af Afrin, er ástandið álíka hrikalegt. Mánuðum saman hafa íbúar í austurhluta Ghouta verið í herkví stjórnarhersins og búið við viðvarandi skort á matvælum og lyfjum. 

Nú hafa hermenn Assads náð völdum í bænum Hammuriyeh í kjölfar mikils sprengjuregns. Í gær sagðist fréttaritari AFP í bænum hafa séð mann standa í dyragætt húss síns með lík tveggja barna sinna í fanginu.

Læknir á svæðinu segir að björgunarmenn komist ekki að hinum stærðu vegna stöðugra sprengjuárása. „Hinir særðu liggja á götunum. Við getum ekki fært þá. Tvær herflugvélar skjóta á allt sem hreyfist,“ segir læknirinnIsmail al-Khateeb.

Starfsmenn Rauða hálfmánans aðstoða mann við að komast frá Ghouta-héraði.
Starfsmenn Rauða hálfmánans aðstoða mann við að komast frá Ghouta-héraði. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa krafist þess að yfir 1.000 manns verði fluttir neyðarflutningum frá svæðinu þar sem fólkið þarf að komast undir læknishendur strax. Í fyrradag tókst að flytja sært og veikt fólk frá Douma, stærsta bænum í Ghouta eftir að samkomulag náðist við uppreisnarmenn sem þar fara enn með völd. Í gær tókst að flytja annan hóp. Við búðir Rauða hálfmánans í Douma stóð fólk í löngum röðum í gærmorgun í þeirri von að komast upp í rútur og sjúkrabíla sem fluttu fólk út af svæðinu.

Í hópnum var m.a. hin átján ára gamli Omran. Hann studdi sig við hækjur á meðan hann beið í röðinni. Hann hafði særst illa í sprengjuárás fyrir tveimur árum og hafði misst vinstri fótinn, hægri handlegginn og vinstra augað. „Okkur hefur ekki tekist að sinna mörgum alvarlegum tilfellum í meira en ár,“ segir læknirinn Mohammed al-Marhum. Á síðustu tveimur dögum tókst að flytja 220 manns útaf svæðinu og undir læknis hendur.

Í síðasta mánuði fór öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fram á 30 daga vopnahlé á svæðinu svo að koma mætti neyðarbirgðum þangað inn og flytja mætti sært og veikt fólk þaðan út. Hingað til hafa slíkar aðgerðir verið leyfðar í Sýrlandi gegn því að fólkið sé aftur flutt inn á svæðið að lokinni læknismeðferð.

Árásir Sýrlandshers inn íGhouta hafa skipt svæðinu í þrjá hluta. Í hverjum þeirra fara ákveðnir uppreisnarhópar með völd. Stjórnvöld í Sýrlandi segjast hafa reynt að ná samningum um vopnahlé á hverju þessara svæða fyrir sig. Rússneski herinn heldur því fram að ástandið íDouma sé orðið „stöðugra“ og að bílalest með neyðarbirgðir muni fá þar inngöngu í dag, fimmtudag. 

Særð kona í sjúkrabíl á leið frá Austur-Ghouta.
Særð kona í sjúkrabíl á leið frá Austur-Ghouta. AFP

Í gær segja mannúðarsamtök að í það minnsta 31 almennur borgari hafi fallið í árásum Rússa og stjórnarhersins í suðurhluta Ghouta. Að sama skapi halda stjórnvöld í landinu því fram að fimm almennir borgarar hafi fallið í árásum sem uppreisnarmenn gerðu á Damaskus.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í gær að uppreisnarmenn í Ghouta væru að leggja á ráðin um efnavopnaárás til að gefa Bandaríkjamönnum ástæðu til að gera loftárásir á Damaskus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert