„Þetta er skrípaleikur, sýning“

Vladímir Pútín, forseti Rússlands, á kjörstað í Moskvu í morgun.
Vladímir Pútín, forseti Rússlands, á kjörstað í Moskvu í morgun. AFP

„Hvers vegna ætti að gera eitthvað sérstakt veður út af þessum kosningum,“ spyr einn.  „Um hvað ætti kosningabaráttan svosem að snúast?“ spyr annar. „Það vita hvort sem er allir hvernig þær fara.“ Það er sama hver spurður er um forsetakosningarnar í Rússlandi; alls staðar er sama viðkvæðið.

Staðurinn er St Pétursborg, næststærsta borg Rússlands með um fimm milljónir íbúa. Þetta er líka heimaborg Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta. Í dag munu um 111 milljónir Rússa kjósa forseta, þar sem hann og sjö aðrir eru í framboði, og blaðamaður Morgunblaðsins hefur dvalið í borginni undanfarna daga til að kynna sér umfjöllun þarlendra fjölmiðla um kosningarnar og hvernig undirbúningi fyrir þær er háttað.

Roskinn Rússi á kjörstað í Sovkhoz Imeni Lenina, sem er …
Roskinn Rússi á kjörstað í Sovkhoz Imeni Lenina, sem er skammt frá Moskvu í morgun. AFP


Þegar gengið var um götur St Pétursborgar síðustu dagana fyrir kosningarnar sáust lítil merki þess að forsetakosningar stæðu fyrir dyrum. Engar auglýsingar á húsum eða strætóskýlum með andlitum glaðbeittra frambjóðenda sem lofa íbúum þessa víðfeðmasta lands heims betra lífi, svo framarlega sem þeir setji X-ið við rétta nafnið. Engar kosningaauglýsingar í sjónvarpi, ekki varð heldur vart við að stuðningsmenn einstakra frambjóðenda dreifðu bæklingum eða öðru kynningarefni á almannafæri.

Síðustu tvo dagana fyrir kosningarnar, í gær og fyrradag, var lítið um kosningaumfjallanir í dagblöðum. Pútín, sem verið hefur ýmist forseti eða forsætisráðherra landsins frá árinu 2000 og sækist eftir endurkjöri, hefur lítið haft sig í frammi undanfarið. Einu kosningaauglýsingarnar sem vart hefur orðið við eru auglýsingar frá kjörstjórn þar sem fólk er minnt á að kjósa á að kjósa.

Frá St Pétursborg. Skilti á strætóskýli minnir á að kosningar …
Frá St Pétursborg. Skilti á strætóskýli minnir á að kosningar eru í nánd.

Enda hlýtur það að sjálfsögðu að hafa áhrif á kosningabaráttununa að áður en gengið er að kjörborðinu liggi fyrir hver verði kosinn forseti. 

Erfitt að koma stefnumálum á framfæri

Gangi niðurstöður nýjustu skoðanakannana eftir, fær Pútín á bilinu 65-70% atkvæða. Sá frambjóðandanna sem mælist með næstmest fylgi er Pavel Grudinin, frambjóðandi Kommúnistaflokksins en fylgi hans mælist nú um 7%. Blaðamaður Morgunblaðsins leit við á kosningaskrifstofu Grudinins í St Pétursborg og spurði m.a. um hvernig kosningabaráttan hefði farið fram.

Pavel Grudinin á kjörstað í morgun.
Pavel Grudinin á kjörstað í morgun. AFP

 „Það er ekki möguleiki fyrir frambjóðendur að koma stefnumálum sínum á framfæri,“ sagði einn starfsmaður skrifstofunnar. „Það þarf mikla peninga til þess, þeir umræðuþættir sem hafa verið í sjónvarpi hafa verið skrípaleikur. Þar fær hver frambjóðandi 3-4 mínútur til að tala og svo mætir forsetinn ekki einu sinni í þessa þætti, þó lög segi til um að hann eigi að gera það. Hann segist ekki mega vera að því, hann hafi svo mikið að gera við að stjórna landinu. Ég segi það aftur: þetta er skrípaleikur, þetta er sýning. En við ætlum ekki að gefast upp.“

Þetta eru ekki sýndarkosningar

Ksenía Sobtsjak er eina konan sem býður sig fram í kosningunum. Hún mælist með fjórða mesta fylgið, um 2% og búist er við að fylgi hennar verði einna mest í St Pétursborg, sem er heimaborg hennar og faðir hennar var þar borgarstjóri. Á kosningaskrifstofu Sobtsjak sagði fjölmiðlafulltrúi framboðsins að nokkuð erfitt hefði verið að sannfæra kjósendur um að hún væri alvöru frambjóðandi, en Sobtsjak er sjónvarpsstjarna í Rússlandi. „Fortíð hennar hefur unnið á móti henni,“ sagði starfsmaðurinn. „Það skiptir líka máli að hún er kona, hún hefur þurft að sanna sig enn meira en ef hún væri karl.  

Ksenía Sobtsjak er eina konan sem er í framboði.
Ksenía Sobtsjak er eina konan sem er í framboði.

Eru þetta sýndarkosningar? Nei, við lítum ekki þannig á það. Við rekum hérna kosningabaráttu af fullum krafti, notum samfélagsmiðlana mikið og okkur vex ásmegin eftir því sem fylgið eykst.“

Engum frambjóðanda tekist að sýna fram á að hann sé betri en Pútín

En hvers vegna mælist enginn mótframbjóðandi forsetans með meira fylgi en raun ber vitni? „Þeim hefur einfaldlega ekki tekist að sýna fram á að þeir gætu gert betur en Pútín,“ segir Valentín Bianki, doktor í stjórnmálafræði og kennari við háskólann í St Pétursborg. „Enginn þeirra hefur sýnt fram á að hann geti boðið upp á stöðugleika, ég held að mörgum finnist að ef einhver þeirra kæmist til valda, þá yrði einfaldlega ekkert kerfi til staðar.“

Auglýsing fyrir kosningarnar í dag.
Auglýsing fyrir kosningarnar í dag.

Bianki segir að lífskjör í Rússlandi séu vissulega betri nú en nokkru sinni fyrr. „En hafa ber í huga að þau voru mjög slæm áður,“ segir hann. „Ég held að almenningur geri sér líka fulla grein fyrir því að næsta kynslóð - þeir sem eru ungir núna, eiga ekki sömu möguleika til að auðgast og kynslóðin sem núna er fullorðin.“

Óvíst með forsætisráðherraefni

„Að mínu mati er það alveg ljóst að þetta er síðasta kosningabarátta Pútíns,“ segir Dmitry Solonnikov stjórnmálaskýrandi í St Pétursborg. Hann starfar hjá stofnun sem heitir Institute of Modern State Development sem staðsett er í borginni. Stofnunin, sem er m.a. fjármögnuð af ríkinu, hefur greint fjölmiðlaumfjöllun um kosningar í  Rússlandi undanfarin ár.

Enn hefur ekki verið tilkynnt um hver verður forsætisráðherraefni Pútíns, hvort það verður áfram Medvedev eða einhver annar og segir Solonnikov  það afar óvenjulegt. „Þetta liggur yfirleitt alltaf fyrir talsvert löngu fyrir kosningar. Hugsanlega gæti þetta verið vísbending um að valdaskipta sé að vænta í efstu lögum,“ segir hann.

Kjörsóknin eitt aðalmálið

Eitt aðalmálið í kosningunum í dag er hversu margir muni mæta á kjörstað. En hvers vegna skiptir það svona miklu máli fyrst nokkuð ljóst er hver úrslitin verða? „Það skiptir miklu máli fyrir valdhafana að geta sent þau skilaboð að meirihluti þjóðarinnar sé á bak við þá,“ segir Anton Mukhin, sem er blaðamaður á tímaritinu Gorod 812. Hann segir að sú krafa sé gerð að kjörsókn í hverju héraði sé ekki minni en 60%.

Rússar kjósa sér forseta í dag.
Rússar kjósa sér forseta í dag. AFP

Spurður hvernig kosningabaráttan horfi við honum svarar Muhkin því til að Pútín forseta hafi ekki tekist að koma því á framfæri hvernig halda eigi áfram að efla þjóðarhag og leiða rússnesku þjóðina áfram. „„Hugmyndafræðin snýst um að horfa aftur á bak, til fortíðar. Það getur varla gengið til lengdar,“ segir hann.

Opinberum starfsmönnum hótað atvinnumissi

Ksenía Klochkova er blaðamaður á fréttavefnum Fontanka, sem er einn mest lesni sjálfstæði fréttafjölmiðillinn í St Pétursborg. Hún segir að utankjörstaðakosning hafi hafist fyrir nokkru síðan og að fjölmiðill hennar hafi fengið vitneskju um að ýmsum meðölum sé beitt til að fá fólk til að kjósa. 

„Til dæmis opinberir starfsmenn,“ segir Klochkova. „Það er látið að því liggja að þeir missi starfið ef þeir kjósi ekki, við höfum heyrt af því að fólki sé gert að taka sjálfsmynd af sér í kjörklefanum með merktum kjörseðli svo að það geti fært sönnur á að það hafi kosið og að það hafi kosið það sem til er ætlast. Ég hef heyrt svipaðar sögur af háskólanemendum og líka af fólki sem hefur verið látið merkja staðsetningu sína á kjörstað með staðsetningarforritum til að sanna að það hafi kosið.“

„Það er ekki mikið að fjalla um,“ svarar Aleksandr Gorshkov, sem er einnig blaðamaður á Fontanka, þegar hann er spurður um fjölmiðlaumfjöllun um forsetakosningarnar.„Þetta liggur allt fyrir og það eina fréttnæma er hversu margir muni kjósa og hver verður í 2. sæti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert