Vladimír Pútín segist ætla að taka á deilumálum við vesturveldin nú þegar hann hefur verið endurkjörinn forseti Rússlands. Síðustu vikur og mánuði hefur Rússland einangrast á alþjóðagrundvelli.
Leiðtogar vesturveldanna voru ekki að flýta sér að óska Pútín til hamingju með sigurinn en hann hlaut 77% atkvæða í kosningunum og þar með meiri stuðning en nokkru sinni áður. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur til að mynda ekki sagt orð um tíðindin opinberlega frá því að úrslitin urðu ljós á sunnudagskvöld.
Mörg átakamál hafa komið upp milli Rússlands og annarra ríkja síðustu misseri. Skemmst er að minnast taugaeitursárásarinnar á Skripal-feðginin í Bretlandi en stjórnvöld þar í landi telja Rússa hafa staðið á bak við hana. Þá hafa nú bandarísk stjórnvöld ákveðið að beita Rússa hertum refsiaðgerðum vegna afskipta þeirra af kosningunum þar í landi árið 2016.
Pútín neitaði því í gær að hann væri að egna Bandaríkin til nýs vígbúnaðarkapphlaups en í þessum mánuði afhjúpaði hann m.a. kjarnorkuvopn sem hann sagði „ósigrandi“.
„Hvað okkur varðar þá munum við gera allt sem við getum svo að deilumál við alþjóðlega félaga okkar verði leyst með pólitískum leiðum,“ sagði Pútín á fundi í gær. „En það þarf ekki að segja það að það þarf tvo til, það er eins og með ástina, báðir aðilar þurfa að hafa áhuga, án hans þá verður engin ást yfir höfuð.“
Pútín sagði stóra verkefnið núna að auka lífsgæði íbúa Rússlands m.a. með auknum fjárfestingum í heilbrigðisþjónustu, menntun og öðrum innviðum.