Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur óskað Vladimír Pútín til hamingju með að hafa verið endurkjörinn forseti Rússlands um síðustu helgi. Trump greindi blaðamönnum frá því að hann hefði talað við Pútín tveimur dögum eftir að kosningarnar fóru fram.
„Ég varð að hringja í Pútín forseta og óska honum til hamingju með kosningasigurinn,“ sagði Trump. „Símtalið snérist líka um þá staðreynd að við erum líklega bráðum að fara að hittast.“
Með því að hringja í Pútín fór Trump gegn ráðleggingum þjóðaröryggisráðgjafa sinna, að því er fram kemur í frétt Washington Post um málið. Í frétt Post kemur fram að þeir hafi látið Trump fá miða fyrir símtalið þar sem stóð með stórum stöfum: EKKI ÓSKA TIL HAMINGJU.
Bandaríkjamenn tóku nýverið þá ákvörðun að beita Rússa refsiaðgerðum vegna afskipta þeirra af forsetakosningunum árið 2016.