Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann sé að íhuga að neita að skrifa undir ný fjárlög, sem hljóða upp á 1,3 billjónir dala, og er ætlað í rekstur bandaríska stjórnkerfisins fram til september. Bandaríkjaþing samþykkti frumvarpið í dag eftir að fulltrúadeild þingsins lýsti yfir stuðningi til að koma í veg fyrir að allt stjórnkerfið færi í frost.
Trump segir að það skorti á aðgerðir í málefnum innflytjenda, m.a. að það skorti vernd fyrir unga innflytjendur sem koma til landsins ásamt foreldrum sínum með ólögmætum hætti. Þetta kemur fram á vef BBC.
Stjórnkerfið hefur lamast í tvígang á þessu ári vegna deilna.
Trump þarf að skrifa undir lögin fyrir miðnætti að bandarískum tíma, þ.e. í Washington, til að tryggja það að ríkið fái fjármagn til að reka sig.
Trump tjáði sig hins vegar um frumvarpið og lýsti yfir áhyggjum sínum með færslu á Twitter í morgun.
I am considering a VETO of the Omnibus Spending Bill based on the fact that the 800,000 plus DACA recipients have been totally abandoned by the Democrats (not even mentioned in Bill) and the BORDER WALL, which is desperately needed for our National Defense, is not fully funded.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 23, 2018
Staðfesti Trump frumvarpið með undirskrift sinni, mun ríkið hafa rekstrarfé til 30. september.
Bandarískir þingmenn hafa staðið í ströngu og deilt um frumvarpið vikum saman, en menn hafa átt erfitt með að ná saman um mörg lykilmál.
Í frumvarpinu er ekki fjallað um örlög ungra innflytjenda sem koma til landsíns ásamt foreldrum sínum með ólögmætum hætti. Þessi hópur naut verndar samkvæmt Daca-áætluninni sem Trump stöðvaði í haust.
Trump er einnig ósáttur við að í frumvarpinu sé ekki sett nægjanlega mikið fjármagn til að reisa vegg við landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó.