Trump íhugar að neita að skrifa undir

Donald Trump er ekki sáttur við frumvarpið í núverandi mynd.
Donald Trump er ekki sáttur við frumvarpið í núverandi mynd. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann sé að íhuga að neita að skrifa undir ný fjárlög, sem hljóða upp á 1,3 billjónir dala, og er ætlað í rekstur bandaríska stjórnkerfisins fram til september. Bandaríkjaþing samþykkti frumvarpið í dag eftir að fulltrúadeild þingsins lýsti yfir stuðningi til að koma í veg fyrir að allt stjórnkerfið færi í frost.

Trump segir að það skorti á aðgerðir í málefnum innflytjenda, m.a. að það skorti vernd fyrir unga innflytjendur sem koma til landsins ásamt foreldrum sínum með ólögmætum hætti. Þetta kemur fram á vef BBC.

Stjórnkerfið hefur lamast í tvígang á þessu ári vegna deilna. 

Trump þarf að skrifa undir lögin fyrir miðnætti að bandarískum tíma, þ.e. í Washington, til að tryggja það að ríkið fái fjármagn til að reka sig. 

Trump tjáði sig hins vegar um frumvarpið og lýsti yfir áhyggjum sínum með færslu á Twitter í morgun. 

Staðfesti Trump frumvarpið með undirskrift sinni, mun ríkið hafa rekstrarfé til 30. september. 

Bandarískir þingmenn hafa staðið í ströngu og deilt um frumvarpið vikum saman, en menn hafa átt erfitt með að ná saman um mörg lykilmál. 

Í frumvarpinu er ekki fjallað um örlög ungra innflytjenda sem koma til landsíns ásamt foreldrum sínum með ólögmætum hætti. Þessi hópur naut verndar samkvæmt Daca-áætluninni sem Trump stöðvaði í haust. 

Trump er einnig ósáttur við að í frumvarpinu sé ekki sett nægjanlega mikið fjármagn til að reisa vegg við landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert