Franskur þjónn sem var rekinn úr starfi fyrir að vera „óvæginn, dónalegur og ókurteis“ segist ekki hafa farið yfir strikið með hegðan sinni – hann sé bara franskur.
Guillaume Rey, sem vann á veitingastað í Vancouver í Kanada, hefur höfðað mál gegn fyrrverandi vinnuveitanda sínum fyrir mannréttindadómstól Bresku Kólumbíu og segir vinnuveitandann sekan um mismunun gegn menningu sinni.
Cara Operations reka veitingastaðinn og segja þau Rey hafa brotið gegn siðareglum veitingastaðarins. Hann hafi ekki látið segjast þrátt fyrir munnlegar og skriflegar áminningar.
Í kæru sinni segir Rey það hluta af menningu Frakka að vera „beinskeyttari og svipmeiri“. Hann hafi verið rekinn fyrir að vera „beinskeyttari og heiðarlegri og fyrir starfstengdan persónuleika sinn“ sem hann hafi öðlast með þjálfun á frönskum veitingastöðum.
Deiluaðilar eru sammála um að Rey hafi sinnt störfum sínum vel þrátt fyrir ógeðfellt viðmót hans.
AFP-fréttastofan segir veitingastaðinn og fyrirtækið sem rekur hann hafa reynt að fá kæruna fellda niður, en dómstóllinn hafi ekki fallist á það.
Ekki er enn búið að ákveða hvenær málið verður tekið fyrir, en Devyn Cousineau, einn dómara dómstólsins, segir Rey þurfa að útskýra hvað það er við franska arfleifð hans sem „veldur hegðun sem aðrir mistúlka sem brot á vinnureglum og ásættanlegri hegðun“.