Færri njósnarar en erfiðara að finna þá

Rússneska sendiráðið í Washington. Haft hefur verið eftir stjórnvöldum að …
Rússneska sendiráðið í Washington. Haft hefur verið eftir stjórnvöldum að yfir 100 rússneskir njósnarar í dulargervum sendiráðsstarfsmanna séu í Bandaríkjunum. AFP

Ákvörðun Bandaríkjastjórnar að reka úr landi 60 rússneska erindreka sem taldir eru sinna njósnastarfsemi í landinu mun að öllum líkindum ekki lama njósnastarfsemi Rússa í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú að aðrir njósnarar starfa nú þegar hjá bandarískum fyrirtækjum, skólum og jafnvel hjá hinu opinbera að því er Reuters fréttastofan hefur eftir núverandi og fyrrverandi embættismönnum.

Rússar nota enn í dag sendiráð sín og sendiskrifstofur sem skjól fyrir njósnastarfsemi sína og bandarísk stjórnvöld gera það sama með sín sendiráð. Reuters hefur eftir heimildamönnum sínum að rússnesk stjórnvöld noti einnig Rússa sem flust hafa landferlum, Bandaríkjamenn, rússneska ferðamenn í heimsókn til Bandaríkjanna og eins séu stofnuð fyrirtæki sem séu lítið annað en skálkaskjól  og loks sé brotist inn í tölvubúnað.

„Rússar hafa sinn hátt á að gera hlutina,“ sagði einn fyrrverandi embættismaður í nýlegu viðtali og kvað stefnu Vladimír Pútíns Rússlandsforseta í þessum efnum vera þá að hafa sem flesta anga úti.

Tækniframfarir gera starf njósnadeilda erfiðara

Bandaríska alríkislögreglan FBI fylgist með ferðum og samskiptum einstaklinga sem hún grunar um að vera erlenda njósnara. Aukin viðvera Rússa í landinu og tækniframfarir, m.a. í dulkóðun upplýsinga gerir starf njósnadeildar stofnunarinnar erfiðara, sagði annar embættismaður sem líkt og fleiri krafðist nafnleyndar.

„Þetta er flóknara núna. Flækjurnar fylgja tækninni sem hægt er að nota,“ sagði sá þriðji er hann var spurður um hvort að erfiðara væri að hafa upp á njósnurum.

Skrifstofur fastanefndar Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum í New York.12 þeirra …
Skrifstofur fastanefndar Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum í New York.12 þeirra 60 sem reknir verða úr landi starfa hjá Sameinuðu þjóðunum. AFP

Reuters segir það hlutverk CIA að fylgjast með erlendum njósnurum utan landsteinanna, NSA fylgist með samskiptum innanlands og það sé svo hlutverk FBI að hafa uppi á njósnurum innan Bandaríkjanna.

Hvíta húsið greindi frá því á mánudag að 60 rússneskir erindrekar yrðu reknir úr landi, en 12 þeirra starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þá verði rússnesku sendiráðsskrifstofunni í Seattle lokað. Eru aðgerðirnar sagðar svar við taugagasár rússneskra stjórnvalda á rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans í  Salisbury á Englandi fyrr í þessum mánuði, en fjöldi ríkja hefur nú gert rússneskum erindrekum að yfirgefa land sitt.

Vilja ekki gefa Rússum skýra mynd af því með hverjum er fylgst

Sagði hátt settur embættismaður í bandarísku stjórnsýslunni á fundi með fréttamönnum vegna málsins að vel yfir 100 rússneskir njósnarar í dulargervum sendiráðsstarfsmanna væru í Bandaríkjunum.

Reuters hefur eftir hátt settum embættismanni sem lengi hefur m.a. haft það á sinni könnu að fylgjast með njósnum Rússa í landinu, að stjórnvöld segi viljandi töluna lægri en hún er. Með því vilji þau forðast að gefa Rússum skýra mynd af því með hversu mörgum einstaklingum sé verið að fylgjast.

Fjöldinn er breytilegur, „en að meðaltali eru þetta um 150 eða þar um bil,“ sagði hann.

Robert Litt, fyrrverandi ráðgjafi hjá yfirmanni njósnamála, segir bandarísk stjórnvöld búa yfir góðum búnaði til að fylgjast með njósnastarfseminni. „Það er mikill fjöldi fólks innan FBI sem starfar við að fylgjast með þessu fólki  og það stendur sig mjög vel.“

Fylgdust með kóðunardeild Microsoft

Reuters segir skrifstofur Microsoft í Seattle hafa verið meðal þeirra staða sem njósnarar Rússa hafa fylgst með. Eitt af verkefnum þeirra hafi verið að komast að því hverjir störfuðu í kóðunardeild fyrirtækisins, af því að Microsoft hugbúnaður er notaður í svo mörgum tækjum. Forsvarsmenn Microsoft hafa ekki viljað tjá sig um þessa fullyrðingu.

2010 var hins vegar Alexey Karetnikov, 23 ára rússneskur njósnari sem hafði unnið hjá Microsoft við að sannreyna kóða rekinn úr landi.

Michael Rochford, fyrrverandi yfirmaður njósnamála hjá FBI, segir brottreksturinn vissulega munu hafa áhrif á andan í rússneska sendiráðinu og á starf öryggislögreglunnar. Áhættan sé hins vegar sú að þegar að nýir njósnarar koma til starfa þá sé ekki vitað hverjir þeir eru. „Stundum er betra að vita hverjir þeir eru og elta þá,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert