Þar til fyrir sex mánuðum hafði Lovimi-fjölskyldan frá Íran aldrei heyrt um Serbíu. Fjölskyldan býr núna í Belgrad, höfuðborg landsins, eftir að hafa komið til landsins án vegabréfa í ágúst, og bíður fjölskyldan þess að komast áfram til Þýskalands, þar sem hún hyggst hefja nýtt og betra líf.
Þessi fjögurra manna fjölskylda kemur úr bænum Ahvaz í Khuzestan-héraði suðvesturhluta Írans, þar sem meirihluti íbúanna er arabískur. Arabar hafa mjög takmörkuð réttindi í Íran, börnum er gert að læra farsi í skólum en ekki arabísku og komið er fram við araba sem annars flokks borgara að sögn fjölskyldunnar og segja þau nánast ómögulegt fyrir araba að finna sér vinnu.
Þegar serbnesk stjórnvöld og stjórnvöld í Íran gerðu samkomulag um að slaka á landamæraeftirliti milli ríkjanna tók Lovimi-fjölskyldan sénsinn og hélt til Belgrad. Þaðan vonuðust þau til að halda ferðalaginu til Evrópu áfram. Fjölskyldan er ekki sú eina en samkvæmt opinberum tölum hafa sjö þúsund Íranar flust til Serbíu síðan í ágúst. Upphaflega sem ferðamenn, en margir hafa ekki í hyggju að snúa aftur til heimalands síns.
Shahla Lovimi, 40 ára móðirin, segir að hún og fjölskyldan hefðu upphaflega farið til Tyrklands og ætlað að halda þaðan áfram til Þýskalands í gegnum Ítalíu. „Við ætluðum aldrei að fara í gegnum Belgrad, við höfðum aldrei heyrt um þessa borg. Við fórum til Tyrklands og smyglarinn tók okkur hingað,“ segir hún í samtali við AFP.
Hún, maður hennar og tvö börn, 11 og 17 ára, borguðu smyglaranum 22 þúsund evrur fyrir ómakið, eða u.þ.b. 2,7 milljónir króna.
Í tvö mánuði bjuggu þau á ólíkum stöðum í Belgrad, í íbúðum og á farfuglaheimilum, og biðu þess að smyglarinn kæmi og færi með þau áfram til Evrópu á bíl. En þegar smyglarinn hvarf fyrir fjórum mánuðum og skildi þau eftir sneri fjölskyldan sér að Info Park-samtökunum sem aðstoða flóttamenn.
Stevan Tatalovic, upplýsingafulltrúi Info Park, segir við AFP að fjöldi Írana sé að nýta sér breytingarnar á vegabréfaeftirlitinu til að komast yfir til Evrópu og dvelja þar ólöglega.
„Þetta eru oft einstaklingar sem eru ofsóttir af pólitískum ástæðum, LGBT-fólk eða af trúarlegum ástæðum,“ segir Tatalovic við AFP. Ásetningur þeirra er ekki að sækja um hæli í Serbíu heldur halda áfram, oft til Bretlands eða annarra Evrópusambandsríkja.
Serbnesk stjórnvöld telja að með minna landamæraeftirliti hafi ferðamannaiðnaður landsins betri möguleika á vexti og laði að fjárfestingu til lengri tíma. Þó segir Rasim Ljajic, viðskiptamálaráðherra Serbíu, að fylgst verði með misnotkun á fyrirkomulaginu og að lokað verði fyrir slíkt.
Þó eru blikur á lofti um að Írönum sem láta reyna á að komast áfram til Evrópu í gegnum Serbíu eigi bara eftir að fjölga. Bendir Tatalovic, hjá Info Park, á að beint áætlanaflug milli Tehran og Belgrad sé hafið eftir 27 ára stopp og er áætlað að um 600 Íranar lendi í Serbíu í hverri viku með þremur flugfélögum sem bjóða flugleiðir á milli. Info Park sendi nýverið frá sér yfirlýsingu þar sem sagt var að bregðast þyrfti við þessari nýju leið flóttamanna.
Þrátt fyrir að fjöldi flóttamanna í Serbíu í dag sé óverulegur í samanburði við fjöldann sem fór í gegnum landið árin 2015 og 2016 hefur ESB áhyggjur af þróuninni. Hafa bæði Þjóðverjar og embættismenn Evrópusambandsins spurt hvers vegna Serbar létu af landamæraeftirlitinu.
Shahla Lovimi segir að fjölskyldan ætli að reyna að halda för sinni áfram í gegnum Króatíu. Fjölskyldan hefur reynt að komast yfir landamærin þar áður, fyrr í þessum mánuði, en þau voru handsömuð af lögreglu sem flutti þau aftur til Serbíu.
„Smyglarinn hvarf og við eigum ekki fyrir því að borga öðrum smyglara. Við látum kannski bara reyna á að ganga yfir landamærin,“ segir hún. „Eina leiðin fyrir okkur áfram er í gegnum Króatíu því öll önnur landamæri eru lokuð.“