Lögreglan í Sacramento í Kaliforníu skaut óvopnaðan karlmann sjö sinnum í bakið. Þetta er niðurstaða óháðrar krufningar sem var gerð í kjölfar málsins.
Maðurinn, Stephon Clark, var alls skotinn átta sinnum 18. mars sl. að sögn réttarmeinafræðings. Hann segir að sjö byssukúlur hafi hæft bak og hlið Clarks. Hann var 22 ára gamall og tveggja barna faðir.
Fram kemur á vef BBC, að hann hafi haldið á farsíma en lögreglumenn töldu að hann væri með skammbyssu.
Mikil mótmæli brutust út í kjölfar dauða Clarks.
Bróðir hans, Stevonte Clark, rauk inn á borgarstjórnarfund í Sacramento í vikunni ásamt mótmælendum og sagði að borgarstjórinn og borgin hefði brugðist öllum.
Réttarmeinafræðingurinn segir að Clark hafi einnig hlotið skotsár á hálsi og mjöðm. Ein kúlan gerði gat á lunga hans. Hann segir að hver og ein kúla hefði getað dregið hann til dauða. Clark lést ekki samstundis heldur um 10 mínútum síðar, en honum blæddi út.
Búið er að birta myndskeið sem sýnir atvikið. Þar sjást lögreglumenn halda sig í fjarlægð er þeir miða byssum sínum á Clark, en lögreglumennirnir voru þá að bíða eftir stuðningi.
Lögmaður Clarks og fjölskylda spyrja nú hvers vegna Clark hafi ekki fengið læknisaðstoð fyrr og búist er við því að þau muni höfða mál gegn ríkinu.