Tyrkir hafa hafnað boði franskra yfirvalda um að hafa milligöngu um friðarumleitanir milli Sýrlensku lýðræðissveitanna – SDF, en þær eru aðallega skipaðar Kúrdum í Sýrlandi, og Tyrkja. Tyrknesk yfirvöld hafa litið á liðsmenn SDF sem hryðjuverkamenn.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í gær að hann vonaðist eftir viðræðum milli þessara tveggja deiluaðila. Talsmaður forseta Tyrklands var aftur á móti fljótur að loka á slíkar hugmyndir og sagði á Twitter að tyrknesk yfirvöld myndu hafna öllum tilraunum til að ýta undir viðræður við „hryðjuverkasamtök“.
Tyrkir hafa löngum haft horn í síðu Kúrda, bæði þeirra sem búa innan tyrkneskra landamæra og þeirra sem búa utan þeirra. Telja þeir Varnarsveitir Kúrda (YPG) í Tyrklandi, sem eru vopnaðar sveitir kúrdíska Verkamannaflokksins og einn helsti stuðningsaðili SDF, vera hryðjuverkasamtök og hafa lengi barist gegn þeim.
Macron fundaði í gær með fulltrúum Kúrda og Sýrlendinga sem barist hafa gegn stjórn Assad og lofaði hann þeim stuðningi Frakklands. Sagðist hann viðurkenna hlutverk SDF í baráttunni við Ríki íslams.