Rússar vilja ræða við Yuliu Skripal

Yulia Skripal er sögð komin til meðvitundar.
Yulia Skripal er sögð komin til meðvitundar. Af Facebook

Bresk stjórnvöld eru að íhuga að veita rússneskum embættismönnum aðgang að sjúkrarúmi Yuliu Skripal sem sögð er á batavegi eftir eiturefnaárásina sem hún varð fyrir ásamt föður sínum, Sergei Skripal, í byrjun mars í enska bænum Salisbury.

Yulia Skripal er nú sögð með meðvitund og geta tjáð sig, að því er fram kemur í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið.  Bresk stjórnvöld segja að eitrað hafi verið fyrir feðginunum með taugaeitrinu novichok sem var þróað og framleitt í Rússlandi.

Rússnesk stjórnvöld hafa sakað þau bresku um ögrun eftir að leit var gerð um borð í flugvél rússneska flugfélagsins Aeroflot er hún lenti nýverið á Heathrow-flugvelli. Í dag tilkynntu þau svo að yfir fimmtíu breskum sendiráðsstarfsmönnum yrði vísað úr landi en ekki 23 eins og áður hafði verið sagt.

Lögreglan rannsakar árásina á feðginin sem tilraun til morðs. Í kjölfar hennar hafa deilur milli landanna harðnað og fleiri ríki, m.a. ríki Evrópusambandsins og aðildarríki NATO, tekið þátt í sameiginlegum aðgerðum gegn Rússum. Þær felast fyrst og fremst í því að vísa stjórnarerindrekum úr landi og einnig að fresta tvíhliða viðræðum af ýmsu tagi.

Sergei Skripal var rússneskur njósnari sem gerðist gagnnjósnari fyrir Breta. Hann var dæmdur í heimalandinu en síðar höfð á honum fangaskipti og í kjölfarið settist hann að í Bretlandi. Hann er ekki talinn hafa verið virkur njósnari eftir það. Hann liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Rússneska sendiráðið birti færslu á Twitter þar sem það krafðist þess að fá að hitta Yuliu Skripal þar sem hún væri rússneskur ríkisborgari.

Talsmaður breska utanríkisráðuneytisins segir að verið sé að skoða þá beiðni með tilliti til breskra og alþjóðlegra laga og í samráði við Skripal sjálfa.

Lögreglan í London neitar því að hafa leitað um borð í rússnesku flugvélinni en rússnesk stjórnvöld höfðu hótað því að gjalda líku líkt og leita í breskri flugvél í Moskvu.

Ben Wallace, öryggismálaráðherra Breta, segir að hefðbundið sé að landamæraeftirlitið leiti í flugvélum til að vernda Bretland fyrir skipulagðri glæpastarfsemi. „Eftir að slíkri leit var lokið fékk vélin að halda leiðar sinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert