Eru sendiráðsstarfsmenn njósnarar?

James Bond, hér leikinn af Daniel Craig, er njósnari hennar …
James Bond, hér leikinn af Daniel Craig, er njósnari hennar hátignar. Ævintýri hans eru í raun ekki svo fjarri lagi. mbl.is

Þegar Theresa May rak 23 rússneska stjórnarerindreka úr landi sagði hún þá leyniþjónustumenn án starfsleyfis. Með öðrum orðum: Hún kallaði þá njósnara. 

Þetta kann að koma fólki sem ekki þekkir til baksviðs í heimi stjórnmálanna í opna skjöldu. Felst starf flestra sendiráðsstarfsmanna ekki í því að taka í höndina á fyrirmennum og greiða úr vandræðum landa sinna með vegabréfsáritanir og þar fram eftir götunum? Kunna þeir ekki þá kúnst helsta að spila golf eða tennis í vinnutímanum og eru orðnir sérfræðingar í að panta sér góðan gin og tónik á nokkrum tungumálum? Hvar er dregin lína milli opinbers sendiráðsstarfsmanns og hins myrkra heims njósna?

„Öll sendiráð heimsins eru með njósnara,“ segir prófessorinn Anthony Glees í viðtali við BBC. Hann fer fyrir deild í Buckingham-háskóla þar sem kennd eru öryggis- og eftirlitsfræði. Og þar sem öll lönd eru með njósnara á sínum vegum þá er þegjandi samkomulag um það milli stjórnvalda að skipta sér lítið af því sem fer fram innan veggja erlendra sendiráða á sinni grundu.

En þetta samkomulag er ekki teygjanlegt út í það óendanlega. Ef eitthvað ólöglegt á sér stað og kemst upp þá eiga ríkisstjórnir það til að bregðast hart við. „Þess vegna var eiturárásin á Skripal-feðginin svo mikið vandamál,“ segir Glees.

Fulltrúar sendiráðsins

Það er þó ekki þannig að allir starfsmenn í hverju einasta sendiráði séu í raun njósnarar að þykjast vera eitthvað annað.

Sendiráðsstarfsmenn viða að sér ýmsum upplýsingum með löglegum hætti, m.a. um þróun og stöðu hins pólitíska landslags sem er í hverju ríki fyrir sig.

„Það eru til sannir stjórnarerindrekar,“ segir Glees. „En sumir sendiráðsstarfsmenn eru í raun leyniþjónustumenn. Og þeir eru til í öllum löndum.“ Þetta er sá hópur sem ber ábyrgð á því að afla upplýsinga á laun. Glees segir hinar eiginlegu njósnir þó gerðar af þriðja aðila. Þær eru fengnar með því að greiða fyrir þær eða jafnvel beita fjárkúgunum. „Sumir stunda þær af hugsjón,“ bendir Glees ennfremur á í viðtalinu á BBC. 

Starfsmenn í sendiráðunum bera svo ábyrgð á samskiptunum við þessa njósnafulltrúa. „Þeir vilja ekki óhreinka hendur sínar sjálfir.“

Viðbrögð við brottrekstri rússnesku erindrekanna hafa verið eins og við var að búast. Mörg lönd gerðu slíkt hið sama, m.a. Bandaríkin, og Rússar svöruðu í sömu mynt. 

Glees segist nú oft fá þá spurningu hvort íbúar Bretlands séu öruggri eftir aðgerð May. „Án efa er svarið já. Þetta er stórt högg fyrir leyniþjónustustarfsemi Rússa.“

En hann segir að þetta geri hins vegar ekki útaf við njósnastarfsemi yfir höfuð. „Njósnafulltrúarnir bíða eftir því að einhver annar komi og stjórni þeim því við munum ekki geta náð taki á þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka