Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, telur mögulegt að bresk stjórnvöld hafi fyrirskipað eiturárásina á njósnarann fyrrverandi Sergei Skripal til að beina athyglinni frá vandamálum landsins vegna útgöngu úr Evrópusambandinu.
Árásin á Skripal og dóttur hans var gerð 4. mars. Fjölmörg vestræn ríki hafa kennt Rússum um árásina og hefur fjölda rússneskra erindreka verið vísað úr landi.
„Þetta gæti verið hagur bresku stjórnarinnar sem hefur verið í óþægilegri aðstöðu eftir að hafa mistekist að uppfylla loforð sín til kjósenda sinna vegna Brexit,“ sagði Lavrov á blaðamannafundi í Moskvu.
Hann sagði það einnig hugsanlega hafa verið „hagur sérsveita Bretlands sem eru þekktar fyrir að hafa leyfi til að drepa“.