Hefja byggingu fyrsta kjarnorkuvers Tyrkja

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti takast í …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti takast í hendur er bygging kjarnorkuversins hófst. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti fögnuðu í dag byggingu fyrsta kjarnorkuvers Tyrkja. Kjarnorkuverið verður reist af rússneska orkufyrirtækinu Rosatom, sem er í eigu rússneska ríkisins. Kostnaður við bygginguna, sem mun rísa í Mersin-héraði, er talinn nema um 20 milljörðum dollara.

Þeir Pútín og Erdogan fylgdust með fyrstu skóflustungunni í beinni útsendingu frá Ankara og sagði Erdogan á fundi með fréttamönnum að kostnaðurinn við verkið kunni að fara fram úr 20 milljörðum dollara, en orkuverið er hluti af framtíðarsýn forsetans fyrir árið 2023 þegar Tyrkir fagna því að öld er liðin frá stofnun nútímaríkisins Tyrklands.

Þegar allir fjórir ofnarnir verða komnir í gagnið mun orkuverið mæta 10% af orkuþörf Tyrkja, hefur Reuters eftir Erdogan. Bætti hann við að þrátt fyrir tafir á verkinu geri tyrknesk stjórnvöld ráð fyrir að fyrsti ofninn verði farinn að framleiða orku strax árið 2023.

Töluverðar tafir hafa hins vegar orðið á verkinu, en ríkin gerðu samning sín á milli árið 2010 og gerir Rosatom ráð fyrir að tyrknesk fyrirtæki muni á næstu árum eignast 49% hlut í verkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert