Aghdam „hataði fyrirtækið“

Nasim Aghdam.
Nasim Aghdam. AFP

Hin 39 ára gamla Nasim Aghdam, sem skaut og særði þrjá í höfuðstöðvum YouTube í Kaliforníu í gær áður en hún svipti sig lífi, hafði lýst yfir reiði sinni vegna þess að henni þótti fyrirtækið ekki sýna henni virðingu.

Lögreglan hefur nafngreint Aghdam en ástæða verknaðarins er enn til rannsóknar. Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að Aghdam hefði reiðst vegna þess að YouTube ritskoðaði efni hennar og hafi auk þess haft af henni tekjur.

Tvær konur og einn karlmaður særðust í árásinni í gær. Ástand karlmannsins er alvarlegt en lögregla segir að engin tengsl hafi fundist milli Aghdam og fórnarlambanna.

Samkvæmt bandarískum fjölmiðlum fjölluðu myndskeið Aghdam á YouTube um dýravernd en öllum hennar myndskeiðum hefur nú verið eytt. 

Í janúar í fyrra birti Aghdam myndskeið þar sem hún kvartaði yfir því að YouTube síaði myndskeið hennar sem leiddi til þess að færri sæju myndskeiðin.

Hafðu lygina stóra, einfalda og endurtaktu hana æ ofan í æ, og á endanum trúa þeir henni,“ sagði Aghdam meðal annars um YouTube en þar vitnaði hún í Adolf Hitler.

Faðir Aghdam sagði að hún hefði verið mjög reið vegna þess að YouTube hætti að borga henni fyrir myndskeiðin. Hann sagði lögreglu að dóttir hennar hefði mögulega farið að höfuðstöðvum YouTube vegna þess að hún „hataði fyrirtækið“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert