Hundruð manns mótmæltu á götum Brooklyn í New York borg í gærkvöldi eftir að lögregla skaut til bana þeldökkan karlmann sem glímdi við geðrænan vanda. Fólkið mótmælti lögregluofbeldi í garð þeldökkra og gengið var frá staðnum þar sem maðurinn, Saheed Vassel, var skotinn og að lögreglustöðinni í hverfinu. BBC greinir frá.
Lögreglan fékk þrjár tilkynningar um að Vassel væri með byssu en í ljós kom að hann var með járnstöng. Fimm lögreglumenn voru kvaddir á vettvang.
Fram kom á blaðamannafundi lögreglu í kjölfarið að maðurinn hefði tekið sér skotstöðu gegnt lögreglumönnunum og beint hlut sem hann hélt á að þeim. Fjórir lögreglumannanna hófu skothríð og skutu samtals tíu skotum.
„Hann hefði ekki dáið ef hann væri hvítur,“ sagði Nora Ford, frækna Vassel eftir fundinn. Aðstandendur segja að lögregla hafi aldrei sagt Vassel að leggja meint vopn frá sér. „Ef lögregla sá að hann var með eitthvað í hendinni, þá hefði hún átt að segja honum að sleppa því að lyfta upp höndum,“ sagði móðir hans, Lorna Vassel.
Þá hafa vitni sagt að lögreglumenn hafi nánast strax hafið skothríð um leið og þeir komu út úr lögreglubílnum. „Þeir sögðu honum ekki að stoppa, lyfta höndum upp í loft eða neitt. Þeir byrjuðu bara strax skjóta,“ sagði eitt vitni.
Faðir Vassel sagði í samtali við New York Times að sonur hans hefði glímt við geðsjúkdóm og ítrekað verið lagður inn á sjúkrahús vegna veikinda sinna. Hann hefði áður komist í kast við lögin og að lögregla hefði átt að vita að hann væri veikur.
Þingmaðurinn Jesse Hamilton hefur krafist þess að málið verið rannsakað í þaula. „Við erum reið. Það eru alltof margir ungir menn sem deyja hér á götum borgarinnar,“ sagði Hamilton þegar hann ávarpaði mótmælendur í gær. „Að glíma við geðsjúkdóm er erfitt, en það ætti ekki að vera dauðadómur,“ sagði hann jafnframt.