Hvað mun gerast á Gaza í dag?

Teygjubyssum beitt af hópi ungra mótmælenda á Gaza.
Teygjubyssum beitt af hópi ungra mótmælenda á Gaza. AFP

Í dag munu þúsundir Palestínumanna taka þátt í mótmælum við landamærin sem komið hefur verið upp á milli Ísraels og Gaza. Fyrir viku létust nítján í sambærilegum mótmælum er ísraelskir hermenn skutu á þá. Sá dagur var sá blóðugasti í átökum Ísraela og Palestínumanna frá árinu 2014.

Hér að neðan verður rýnt í hvað hefur gerst og hvað gæti gerst í mótmælunum í dag.

Hvað gerðist fyrir viku?

 Tugþúsundir Palestínumanna söfnuðust saman við landamæragirðingarnar sem Ísraelar hafa komið upp viðGaza-svæðið. Mótmælendur kröfðust þess að fá aftur landsvæði sem af þeim hafði verið tekið. Um ein fjölmennustu mótmæli síðari ára á svæðinu var að ræða og sögðu skipuleggjendur fyrirfram að vonast væri til þess að þau yrðu friðsamleg.

Mótmælendur voru einnig við landamærin í gær. Í dag er …
Mótmælendur voru einnig við landamærin í gær. Í dag er búist við þúsundum þeirra á vettvangi. AFP

Meirihluti mótmælenda hélt friðinn en fámennur hópur fór að landamæragirðingum Ísraela og kastaði steinum og veltu brennandi dekkjum í átt að girðingunum en handan þeirra stóð fjölmennt herlið Ísraela. 

Ísraelar svöruðu með því að skjóta á fólkið og felldu í þeim aðgerðum sínum nítján og særðu hundruð. Þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að beita óhóflegu valdi.

Ísraelar hafa lýst því yfir að þeir muni stöðva allar tilraunir til skemmdarverka á landamæragirðingunum. Þá halda þeir því fram að skotárás hafi verið gerð á hermenn sína.

Stjórnvöld í Ísrael saka Hamas, hreyfinguna sem fer með stjórnartaumana á Gaza, um að stunda ofbeldisverk í skjóli mótmælanna. 

Hvað er það sem þeir vilja?

Í mótmælunum er þess krafist að réttur Palestínumanna sé virtur og að þeir fái að snúa aftur til landsins sem þeir voru hraktir frá í stríðinu árið 1948 er Ísraelsríki var stofnað. 

Þessi krafa Palestínumanna nýtur stuðnings Sameinuðu þjóðanna en ályktun stofnunarinnar þar um hefur aldrei verið uppfyllt. Á meðan búa um fimm milljónir palestínskra flóttamanna og afkomendur þeirra á hernumdum svæðum á Vesturbakkanum, á Gaza og í nágrannalöndum Ísraels.

Þetta er lykilkrafa Palestínumanna sem margir eiga enn lykla að heimilum sínum og fjölskyldna sinna sem nú eru á svæðum innan landamæra Ísraels. 

Ísraelar segja hins vegar að krafa Palestínumanna jafnist á við það að útrýma Ísraelsríki.

Til stendur að mótmælin standi fram í miðjan maí en þá ætla Bandaríkjamenn að færa sendiráð sitt frá Tel Aviv til Jerúsalem. Donald Trump Bandaríkjaforseti hét því í kosningabaráttu sinni að flytja sendiráðið og stóð við það. Ákvörðun hans vakti harða gagnrýni hjá Palestínumönnum sem líta á Jerúsalem sem sína höfuðborg.

Hverjir standa að mótmælunum?

Stjórnvöld í Ísrael sakaHamas-samtökin um að standa að baki mótmælunum. Skipuleggjendur þeirra hafna því og segja að mótmælin séu skipulögð af mörgum óháðum hópum og aðHamas sé aðeins einn af þeim. LeiðtogarHamas tóku þátt í mótmælunum í síðustu viku.

Ungur palestínskur karlmaður notar teygjubyssu til að kasta grjóti að …
Ungur palestínskur karlmaður notar teygjubyssu til að kasta grjóti að landamæragirðingum Ísraela. AFP

Hver er orsök mótmælanna nú?

Stjórnamálasérfræðingar segja að mótmælin nú eigi rót sína að rekja til vaxandi kúgunar sem fólkið á Gaza upplifir. Svæðið hefur verið í herkví Ísraela í áratug. Þá hafa Egyptar hert eftirlit á landamærum sínum að Gaza að því þeir segja af öryggisástæðum. 

Mahmud Abbas er forseti alþjóðlega viðurkenndrar ríkisstjórnar Palestínu og hefur stjórn hans, sem heldur til á Vesturbakkanum, einnig sett hömlur á Gaza að því er stjórnmálaskýrendur telja til að refsa öfgamönnum sem þar er að finna.

Afleiðingarnar hafa verið efnahagsþrengingar og er atvinnuleysi á Gaza nú um 40% og atvinnuleysi meðal ungs fólks enn meira. Mótmælendur segja skorta á tækifæri til betra lífs innan Gaza. Þá segjast sumir þeirra ekki óttast dauðann. 

Ísraelar segja að Hamas-samtökin lofsama dauðann og hvetja unga reiða menn til að verða píslarvætti. Þannig hafi samtökin greitt fjölskyldum þeirra sem hafa látið lífið í átökum háar fjárhæðir.

Á hverju er von á í dag?

Í dag er búist við því að þúsundir mótmælenda muni koma að fimm svæðum við landamæragirðingarnar á Gaza. 

Skipuleggjendur mótmælanna segjast ætla að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að fólkið hætti sér of nálægt en óvíst er hvort það takist.

Hópar ungra karlmanna hafa flutt hauga af dekkjum á svæðið sem þeir ætla sér að kveikja í meðfram landamærunum svo að reykur verði til þess að leyniskyttur geti ekki skotið á mótmælendur.

Í gær kom hópur þeirra að landamærunum og kastaði grjóti. 

Munu Ísraelsmenn breyta aðferðum sínum?

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandið og aðrir hafa farið fram á að óháður aðili rannsaki skotárásir á mótmælendur í síðustu viku. 

Mannréttindavaktin segir að drápin hafi verið „útpæld“ og ólögleg. Bað Guterres Ísraela að sýna ýtrustu varúð í viðbrögðum sínum.

Stjórnvöld í Ísrael hafa hafnað því að óháð rannsókn verði gerð. „Ef það verður ögrun þá verða viðbrögðin hörð eins og í síðustu viku,“ segir Avigdor Lieberman, varnarmálaráðherra Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert