Fidesz, flokkur forsætisráðherrans og þjóðernissinnans Viktor Orbans, er með meirihluta atkvæða eftir að fyrstu tölur hafa verið tilkynntar í þingkosningum í Ungverjalandi. Það eru því allar líkur á því að Orban setjist á stól forsætisráðherra þriðja kjörtímabilið í röð. AFP-fréttastofan greinir frá.
Flokkur Orban er með rúmlega 49 prósent atkvæða þegar 64 prósent atkvæða hafa verið talin. Kjörsókn er sögð hafa verið tæp 69 prósent, en um 7,9 milljón Ungverja eru á kjörskrá.
Fidesz-flokkurinn orðið æ íhaldssamari, þjóðernissinnaðri og einarðari í afstöðu sinni gegn innflytjendum, flóttafólki og afskiptum Evrópusambandsins af innri málefnum Ungverjalands undanfarin ár.
Kjörstaðir opnuðu klukkan sex í morgun í mætti Orban sjálfur snemma á kjörstað í Budapest. „Þetta er land sem hefur alltaf staðið sig, þannig að við getum treyst fólkinu og ég mun sætta mig við ákvörðun þeirra,“ sagði Orban.