Hnífstungufaraldur í Lundúnum

Fjölskylda og vinir minnast Israels Ogunsola, sem stunginn var til …
Fjölskylda og vinir minnast Israels Ogunsola, sem stunginn var til bana í Hackney-hverfinu í Lundúnum í vikunni. AFP

Segja má að tónninn hafi verið gefinn strax á nýársnótt þegar fjórir voru stungnir til bana í Lundúnum. Ástandið hefur ekki verið verra í borginni í sex ár og mælist aukningin 23% frá fyrra ári. Til samanburðar má nefna að 21 var ráðinn bani í New York í marsmánuði, einum minna en í Lundúnum, sem er fáheyrt. Til frekari samanburðar þá hafa sjö manns látist af skotsárum í Lundúnum það sem af er árinu. Eggvopn eru því mun stærra vandamál en skotvopn.

Fórnarlömbin eru á öllum aldri, mest ungt fólk, niður í sautján ára, en sá elsti 55 ára. Karlar eru í miklum meirihluta en nokkrar konur liggja þó í valnum líka. Árásirnar hafa átt sér stað vítt og breitt um borgina. Ýmsir hafa verið til þess að fordæma þetta „tilgangslausa ofbeldi“ en fátt virðist vera um svör.

Þjóðlægt vandamál

Tölfræðin, sem getið er hér að framan, veldur Sadiq Khan borgarstjóra áhyggjum en hann vill samt ekki að umræðan snúist um Lundúnaborg eina og sér. Vandamálið sé þjóðlægt. „Við þurfum lausnir á landsvísu. Mestu ofbeldisglæpirnir, þar á meðal hnífaárásir, hafa verið að aukast vítt og breitt um England og Wales. Þessi tölfræði bergmálar ríkisstjórn sem hefur gert lítið til að sporna við glæpum undanfarin átta ár, að ekki sé talað um að finna út úr því hvað veldur þeim. Ríkisstjórnin verður þegar í stað að auka fjárframlag sitt til lögreglunnar, auk þess að styrkja samfélagsþjónustu sem getur mögulega komið í veg fyrir að fólk leiðist út í glæpi. Þá er ég að tala um þjónustu við ungmenni, menntun, skilorð og geðheilbrigðisþjónustu,“ sagði Khan við fjölmiðla í vikunni.

Þörf á inngripi

Karyn McCluskey, fyrrverandi yfirmaður stofnunar sem hefur það hlutverk að greina vandann, segir mikilvægast að bera kennsl á hugsanlega gerendur. „Við þurfum að grípa inn í vegna þess að margir eru reiðir og í hefndarhug af einhverjum ástæðum. Oft og tíðum er þetta fólk sem þarf að komast í áfengis- eða fíkniefnameðferð eða þarf á nýjum búsetuúrræðum að halda. Málið snýst því um að koma þessu fólki í samband við þar til bæra aðila og sjá til þess að sambandið rofni ekki,“ sagði hún við BBC.

Greinin í heild birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert