Níu lönd hafa óskað eftir neyðarfundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á morgun, mánudag, vegna efnavopnaárásar í Sýrlandi sem talin er hafa orðið að minnsta kosti 70 manns að bana í borginni Douma í Ghouta-héraði.
Það voru Frakkar sem höfðu frumkvæði að því að óska eftir fundi, en Bandaríkin, Bretland, Kúveit, Svíþjóð, Pólland, Perú, Holland og Fílabeinsströndin hafa fylgt í kjölfarið, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir heimildamanni. Er þess krafist að fundað verði klukkan sjö annað kvöld, en ekki hefur formlega staðfest að það gangi eftir.
Yfirvöld í Sýrlandi og Rússlandi neita því að efnavopnaárás hafi átt sér stað, en fjöldi ljósmynda og myndbanda frá vettvangi, sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum og fréttaveitum, bera merki þess að slík árás hafi átt sér stað.
Rússar, bandamenn Sýrlendinga, eiga fast sæti í öryggisráðinu ásamt Frökkum, Bandaríkjamönnum, Bretum og Kínverjum, en ráðið hefur reglulega fundað um ástandið í Sýrlandi síðan stríðið hófst árið 2011.