Efnavopnaárásinni á sýrlensku borgina Douma verður svarað af afli ef marka má orð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Trump segir Bandaríkin íhuga hernaðaraðgerðir í Sýrlandi vegna árásarinnar á laugardag. Í það minnsta 70 manns féllu í árásinni og hundruð særðust.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman á neyðarfundi í kvöld þar sem Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að sýrlenski stjórnarherinn verið dreginn til ábyrgðar fyrir að beita efnavopnum gegn eigin borgurum.
Haley gagnrýndi einnig öryggisráðið fyrir aðgerðarleysi vegna efnavopnaárása sem framdar hafa verið síðustu mánuði og vonast hún til að nú verði breyting á og vísaði í því samhengi til orða forsetans.
Frétt mbl.is: Vill að öryggisráðið grípi til aðgerða
Trump sagði í kvöld að Bandaríkin muni bregðast við efnavopnaárásinni með einum eða öðrum hætti. „Við munum bregðast við og við munum bregðast við af afli,“ sagði Trump, umkringdur öryggisvörðum sínum. Forsetinn mun greina frá ákvörðun sinni um viðbrögð síðar í kvöld eða í fyrramálið.