Stjórnvöld í Bandaríkjunum telja sig hafa nægar sannanir til að sýna fram á að efnavopnum hafi verið beitt í Sýrlandi og að sýrlensk yfirvöld, undir stjórn Bashar al-Assad, hafi beitt þeim.
Heather Nauert, talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, vill þó ekki gefa upp hvenær nákvæmlega sönnunargögnin lágu fyrir. „Árásin átti sér stað á laugardag og við vitum það fyrir víst að um efnavopn var að ræða,“ segir Nauert í samtali við AFP fréttastofuna.
Aðspurð hvort Bandaríkin geti sýnt fram á að Assad og stjórn hans standi á bakvið árásina svaraði Nauert játandi.
Teymi á vegum alþjóðlegu stofnunarinnar um bann við efnavopnum, OPCW, er væntanlegt til Douma um helgina en þeirra hlutverk er ekki að finna þann sem ber ábyrgð á árásinni, þeirra tlilgangur er að rannsaka hvort um efnavopnaárás hafi verið að ræða þegar árás var gerð á bæinn um helgina.
Nauert segir að bandarísk stjórnvöld séu ekki að treysta á niðurstöður OPCW heldur taki mið af sínum eigin rannsóknum. Hún geti ekki gefið frekari upplýsingar upp að svo stöddu þar sem þeir eru flokkaðar sem leynilegar.