Bandaríkin, Bretland og Frakkland lögðu í kvöld fram nýja ályktunartillögu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um að ráðið rannsaki efnavopnaárásir í Sýrlandi. Samkvæmt tillögunni yrði skipuð óháð rannsóknarnefnd sem rannsaki ásakanir um að Sýrlendingar hafi gert efnavopnaárásir á svæði á valdi uppreisnarmanna og finni hina seku.
Í ályktunartillögunni er þess einnig krafist, að hægt verði að koma hjálpargögnum óhindrað til þeirra svæða, sem orðið hafa fyrir árásum í Sýrlandi. Einnig er þess krafist að sýrlensk stjórnvöld taki þátt í friðarviðræðum undir forustu Sameinuðu þjóðanna.
AFP fréttastofan segir, að þessi tillaga undirstriki vilja vesturveldanna til að leita diplómatískra lausna á Sýrlandsdeilunni þótt fyrrnefndu ríkin hafi gert flugskeytaárás á efnageymslur og rannsóknarstofur í Sýrlandi í morgun.
Rússar beittu þrívegis neitunarvaldi í öryggisráðinu í nóvember til að stöðva rannsókn Sþ á eiturvopnaárás á Khan Sheikhun í Sýrlandi í apríl í fyrra.
Fyrr í dag var haldinn neyðarfundur í öryggisráðinu að kröfu Rússa, sem reyndu að fá samþykkta tillögu þar sem flugskeytaárásirnar í morgun yrðu fordæmdar. Þessi tillaga var felld með miklum mun.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði á fundinum í dag að bandarísk stjórnvöld teldu ljóst að flugskeytaárásirnar í dag hefðu laskað efnavopnaverksmiðjur Sýrlendinga verulega. En Bandaríkin væru reiðubúin til að gera slíkar árásir aftur ef Sýrlendingar gerðu fleiri efnavopnaárásir.