James Comey, fyrrverandi forstjóri alríkislögreglunnar í Bandaríkjunum, FBI, var harðorður í garð Donalds Trump forseta í viðtali á ABC-sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi. Hann sagði forsetann siðferðilega óhæfan til að gegna embættinu og að hann væri raðlygari sem kemur óorði á alla sem umgangast hann.
Í gærdag kallaði Trump Comey „slímbolta“ (slimeball) og gaf til kynna að hann ætti best heima í fangelsi. Trump rak Comey úr starfi forstjóra FBI fyrir nokkru.
Á morgun koma út endurminningar Comeys, A Higher Loyalty: Truth, Lies and Leadership. Í bókinni fer hann í smáatriðum yfir samskipti sín við forsetann.
„Ég held að hann sé siðferðilega óhæfur til að vera forseti,“ sagði Comey í viðtalinu sem er það fyrsta sem hann gefur frá því að hann var rekinn í maí á síðasta ári.
Sagði Comey að Trump talaði um konur og kæmi fram við þær eins og þær séu „kjötstykki“. Þá ljúgi hann stöðugt um stóra jafnt sem smáa hluti og heldur að bandaríska þjóðin kaupi það.
Comey segir það klemmu að starfa undir stjórn Trumps. „Áskorunin varðandi þennan forseta er að hann setur svartan blett á alla í kringum hann.“ Að lokum væri það spurning um hvort fólk, sem starfar undir honum, getur sinnt starfi sínu sem felst í því að vernda þjóðina og þjóna landi sínu.
Í bók sinni líkir Comey Trump við óheiðarlegan og sjálfselskan mafíuforingja. Hann segir að Trump hafi krafist persónulegrar hollustu frá honum sem forstjóra FBI.
Þessu hefur Trump vísað á bug. „Ég ætlaðist aldrei til persónulegrar hollustu af Comey. Ég þekkti þennan náunga varla. Þetta er bara enn ein lygin sem hann segir. Endurminningar hans eru til þess upphefja hann sjálfa og eru FALSKAR,“ skrifaði Trump í einni af mörgum færslum sínum á Twitter í gær.
Trump segir að Comey hafi staðið „heimskulega“ að rannsókn á tölvupóstum Hillary Clinton, mótframbjóða hans til forseta árið 2016.
Í viðtalinu í gær sagðist Comey þess ekki fullviss að Rússar byggju yfir gögnum sem hægt væri að nota til að kúga Trump. „Ég held að það sé mögulegt. Ég veit það ekki. Þetta eru samt hlutir sem ég hélt að ég myndi aldrei segja um forseta Bandaríkjanna, en þetta er mögulegt.“
Comey segir að svo geti verið að Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar er hann bað sig um að hætta rannsókn á fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafanum Michael Flynn.
„Mögulega. Ég meina, það eru vissulega fyrir hendi sannanir um hindrun á framgangi réttvísinnar,“ sagði Comey.
Comey viðurkenndi í viðtalinu við ABC að hann hefði talið að Hillary yrði kosin forseti og að það hafi haft áhrif á ákvörðun hans um að hefja að nýju rannsókn á tölvupóstmáli Hillary Clinton, ellefu dögum fyrir forsetakosningarnar. Clinton hefur sagt að rannsóknin svo skömmu fyrir kosningar hafi haft sitt að segja um ósigur hennar.
Segist hann hafa litið svo á að hann hefði ekki með nokkru móti geta falið tölvupóstmálið fyrir bandarísku þjóðinni.