May og Macron finna fyrir reiði þingmanna

Þrjú ríki stóðu að loftárásunum í Sýrlandi: Emmanuel Macron Frakklandsforseti, …
Þrjú ríki stóðu að loftárásunum í Sýrlandi: Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Theresa May, forsætisráðherra Breta, og Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafa í dag fengið að finna fyrir reiði þingmanna sinna sem margir hverjir ósáttir eru við loftárásir sem farið var í í félagi við Bandaríkin í Sýrlandi á laugardag. Um er að ræða umfangsmestu hernaðaraðgerð sem Frakkar hafa tekið þátt í frá því að Macron tók við embætti forseta. 

May mun í dag ávarpa breska þingið vegna málsins en ákvörðun um loftárásir var tekin án samþykkis þess. Þetta er mjög viðkvæmt mál í Bretlandi þar sem margir eru enn ævareiðir yfir þátttöku Breta í innrás Bandaríkjamanna í Írak árið 2003.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur efasemdir um lögmæti árásanna og vill að lög verði sett til að hindra ríkisstjórnir um að fara í slíkar aðgerðir án einhverrar aðkomu þingsins. 

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun ávarpa þingið í dag.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun ávarpa þingið í dag. AFP

„Ég tel að hafa hefði átt samráð við þingið og boða til atkvæðagreiðslu um málið. Breski forsætisráðherrann er ábyrgur gagnvart þinginu og á ekki að stjórnast af geðþóttaákvörðunum forseta Bandaríkjanna,“ skrifaði Corbyn í bréfi sínu til May um helgina. 

Samtökin Stöðvum stríðið (Stop the War), sem Corbyn fór eitt sinn fyrir, hafa boðað til mótmæla fyrir utan þinghúsið í London í dag. Samtökin segja að loftárásirnar hafi ekkert gert til að stöðva stríðið í Sýrlandi sem nú hefur staðið í yfir sjö ár. Hins vegar hafi árásirnar verið til þess fallnar að herða átökin. 

Skoski þjóðarflokkurinn og Frjálslyndir demókratar hafa einnig gagnrýnt May og segja mögulegt að efnt verði til atkvæðagreiðslu í þinginu í dag sem muni koma forsætisráðherranum í vandræði. Frekari útskýringar um málið hafa ekki komið fram í dag. 

Macron hefur orðið fyrir svipaðri gagnrýni í Frakklandi. Þar er það einnig gagnrýnt að Frakkar hafi farið í árásirnar án samráðs við þingið. Macron varði ákvörðun sína í sjónvarpsviðtali seint í gærkvöldi. 

 „Þetta umboð fær forsetinn með lýðræðislegum hætti í forsetakosningum,“ sagði hann. Macron sagðist hafa sannfært Donald Trump Bandaríkjaforseta um að draga herlið sitt ekki frá verkefnum í Sýrlandi strax. Hann hefur einnig verið gagnrýndur fyrir þau ummæli sín og kemur gagnrýnin frá flokkum víðsvegar af hinu pólitíska litrófi.

Marine Le Pen, leiðtogi franska þjóðernisflokksins National Front, segir Macron ekki hafa tekist að sýna fram á sannanir um að efnavopnaárás hafi raunverulega verið gerð í Douma í Sýrlandi af hálfu stjórnarhers landsins. 

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur varið þá ákvörðun að blanda þinginu …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur varið þá ákvörðun að blanda þinginu ekki í ákvörðunartökuna um loftárásirnar í Sýrlandi. AFP

Macron segir að árásirnar hafi verið löglegar og nauðsynlegar. 

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, segir að ákvörðun um loftárásir í Sýrlandi hafi verið „réttar fyrir Bretland og réttar fyrir heimsbyggðina“. Hann mun í dag hitta aðra leiðtoga ESB-ríkja þar sem þetta mál verður m.a. rætt.

 „Það var heimsbyggðin sem sagði að við hefðum fengið nóg af notkun efnavopna,“ sagði Johnson.

Kannanir sem birtar hafa verið eftir árásina sína að aðeins naumur meirihluti Breta styður ákvörðun breskra stjórnvalda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert