Dómstóll í New York úrskurðaði í dag að Michael Cohen, lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, þurfi að gefa upp hver þriðji skjólstæðingur hans er, sem hann hefur hingað til ekki viljað veita upplýsingar um.
Leyndi skjólstæðingurinn reyndist vera sjónvarpsmaðurinn Sean Hannity, fréttaþulur á Fox-sjónvarpsstöðinni og dyggur stuðningsmaður Trumps sem hefur ótal sinnum komið honum til varnar í sjónvarpsþætti sínum. Ekki liggur fyrir hvers vegna Hannity réð Cohen en í yfirlýsingu sem Hannity gaf út í kjölfar dómsins neitar hann alfarið að hafa verið skjólstæðingur Cohen.
Michael Cohen has never represented me in any matter. I never retained him, received an invoice, or paid legal fees. I have occasionally had brief discussions with him about legal questions about which I wanted his input and perspective.
— Sean Hannity (@seanhannity) April 16, 2018
Bandaríska alríkislögreglan FBI gerði húsleit á skrifstofu Cohen 9. apríl eftir tilvísun þess efnis frá Robert Mueller, sem stýrir rannsókn sérstakrar nefndar á meintum afskiptum Rússa af kosningabaráttu forsetans árið 2016.
Frétt mbl.is: Húsleit hjá lögfræðingi forsetans
Starfsmenn rannsóknarinnar í New York lögðu hald á trúnaðarupplýsingar um það sem hefur farið fram hjá Cohen og skjólstæðingum hans. Í dóminum sem var kveðinn upp í dag var Cohen neitað um þá kröfu sína að saksóknarar fengju ekki aðgang að gögnunum.
Hannity fjallaði um húsleitina í síðustu viku í þætti sínum og sagði hana vera stríðsyfirlýsingu gegn forsetanum.