Viðræður Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í Washington í dag virðist hafa skilað takmörkuðum árangri þegar kemur að framtíð kjarnorkusamningsins við Íran frá 2015 og alþjóðaviðskiptamálum að því er segir í frétt AFP. Hins vegar hafi þau forðast að opinbera ágreining sinn fyrir framan fjölmiðla.
Fram kemur í fréttinni að Merkel hafi kvatt höfuðborg Bandaríkjanna án þess að fá loforð Trumps um að styðja kjarnorkusamninginn eða að Evrópusambandið fengi varanlega undanþágu frá bandarískum verndartollum. Að óbreyttu leggjast slíkir tollar á stál og ál sem framleitt innan sambandsins 1. maí sem væntanlega mun kalla á gagnaðgerðir.
„Forsetinn verður að ákveða þetta. Það er nokkuð ljós,“ sagði Merkel á sameiginlegum blaðamannafundi leiðtoganna eftir viðræður þeirra. Þau hafi skipst á skoðunum á stöðu mála í viðræðunum um verndartollana en ákvörðunin væri Trumps. Varðandi Íran sagði Merkel að þó kjarnorkusamningurinn væri ófullkominn væri hann þess virði að halda í hann.
Trump hefur sagt kjarnorkusamninginn, sem felur í sér að dregið er úr refsiaðgerðum gegn Íran gegn því að þarlend stjórnvöld hætti tilraunum til þess að koma sér upp kjarnavopnum tímabundið, hræðilegan og krafist þess að samið yrði upp á nýtt um hann. En forystumenn innan Evrópusambandsins telja það óraunhæft, hættulegt og ónauðsynlegt.
Trump ítrekaði ennfremur gagnrýni sína á NATO og sagði að varnarbandalagið aðallega þjóna hagsmunum Evrópuríkja. Kallaði hann enn og aftur eftir því að aðildarríki NATO í Evrópu greiddu meira fyrir eigin varnir. „NATO er frábært en það hjálpar Evrópuríkjum meira en það hjálpar okkur.“ Kostnaðurinn vegna bandalagsins lenti aðallega á Bandaríkjunum.
Þá sagði Trump á blaðamannafundinum að svo gæti farið að hann færi til Ísraels í næsta mánuði til þess að opna nýtt sendiráð Bandaríkjanna í Jerúsalem í kjölfar þess að hann fyrirskipaði að það yrði flutt til borgarinnar frá Tel Aviv. Sagðist hann mjög stoltur af þeirri ákvörðun sinni en hún leiddi til mótmæla og gagnrýni úr röðum Palestínumanna.