Lögregluyfirvöld í Ósló vita vart í hvorn fótinn þau eiga að stíga gagnvart afbrotaöldu sem nú gengur yfir borgina. Nánast daglegt brauð er að fólk sé skotið, stungið og grýtt og eru þeir atburðir ekki lengur bara bundnir við þekkt „vandræðahverfi“ borgarinnar. Fjölgað verður í liðinu um tugi lögreglumanna í maí til að stemma stigu við óöldinni.
„Við getum ekki stöðvað þá. Það út af fyrir sig er áhyggjuefni en eins horfum við upp á það núna að ofbeldið er að verða mun grófara en áður,“ segir Janne Stømner í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en hún stjórnar forvarnahópi Óslóarlögreglunnar.
Stømner vísar í máli sínu til ungra afbrotamanna sem hafa sig mjög í frammi í áður friðsömum hverfum og hún er ekki ein um áhyggjurnar því Marianne Borger, borgarstjóri í Ósló fyrir hönd Sósíalíska vinstriflokksins, sagði í morgun í samtali við norska dagblaðið VG að íbúar vissra borgarhverfa skömmuðust sín fyrir að gefa upp heimilisfang sitt í höfuðborg Noregs. Borger veit hvað hún talar um því í nótt fór hún út á vígvöllinn með lögreglunni í Ósló til að sjá með eigin augum þá hildi sem laganna verðir heyja á venjulegri næturvakt.
„Eitt er að þau upplifa að þeim sé stillt upp við vegg þegar hverfin þeirra eru flokkuð sem hættulegt búsetusvæði,“ segir Borger og á við ungmenni sem búsett eru í þessum hverfum. „Annað er svo að þau þekkja [mörg hver] fórnarlömb skot- og hnífstunguárása og annars ofbeldis eða hafa jafnvel orðið fyrir slíku sjálf. Þetta er óskaplega sorglegt,“ segir borgarstjórinn.
Borger fer ekki með fleipur, lítill hörgull hefur undanfarið verið á fréttum af skotbardögum, ránum og hnífstungum í því sem áður töldust örugg og kyrrlát hverfi og rak margur borgarbúinn upp stór augu í síðustu viku þegar greint var frá því að hópur ungmenna í Vestli-hverfinu hefði grýtt Nátthrafnana svokölluðu (n. Natteravnene), sveit sjálfboðaliða sem starfar í mörgum borgum og bæjum Noregs við að koma vímuefnaneytendum og öðrum, sem komnir eru á refilstigu í lífi sínu, til aðstoðar.
Til að stemma stigu við óöldinni, sem einkum geisar í austur- og suðurhluta borgarinnar, hefur lögreglan í Ósló ákveðið að bæta rúmlega 40 lögreglumönnum við lið sitt tafarlaust en norska Stórþingið hefur veitt lögreglunni 30 milljóna króna, jafnvirði 380 milljóna íslenskra króna, aukafjárveitingu til að standa straum af kostnaði við liðsstyrk þennan.
Hans Sverre Sjøvold, lögreglustjóri í Ósló, segir fjölgunina ekki þola neina bið en hann lýsti ástandinu í borginni ítarlega á blaðamannafundi í gær. „Sex þeirra [nýju lögregluþjónanna] fara beint í forvarnastarf, aðrir sex í rannsóknardeild og hinir 29 fara í lögregluna í austurbænum,“ sagði Sjøvold á fundinum sem boðað var sérstaklega til með það fyrir augum að greina frá aðgerðum gegn öldu skot- og annars konar árása í Ósló síðustu vikur.
Aðrar fréttir um málið en þær sem vísað er til í þessari frétt: