Borgaryfirvöld í Los Angeles höfðuðu í dag mál á hendur níu lyfjaframleiðendum og birgjum vegna sölu og dreifingar ópíóða. Eru fyrirtækin kærð fyrir að hafa brugðist í því að stöðva grunsamlega sölu á lyfinu og að hafa viðhaft viðskiptahætti sem áttu þátt í að auka ópíóðafaraldurinn að því er Los Angeles greinir frá.
Bættist borgin þar með í hóp hundruð annarra sem hafa þegar höfðað hópmálsókn gegn lyfjaframleiðendum og lyfjasölum. Washington Post greindi frá því í síðasta mánuði að hundruð annarra byggðarlaga víðs vegar um Bandaríkin höfða nú mál gegn fyrirtækjunum sem framleiddu og dreifðu þessum ávanabindandi verkjalyfjum. Málshöfðunin nær til birgja víðs vegar um dreifikeðjuna og segja sækjendur í málinu að hið umfangsmikla net ópíóðaiðnaðarins þurfi að greiða fyrir skaðann sem það hefur valdið.
Sagði Washington Post borgir, sýslur, ættbálka frumbyggja og verkalýðsfélög hafa sameinast um málshöfðun sem kunni að vera stærri en nokkuð sem dómskerfið hefur áður tekið til umfjöllunar.
„Plága fíknar í lyfseðilsskyld lyf hefur haft veruleg áhrif á íbúa Los Angeles,“ sagði í yfirlýsingu frá borgarlögmanninum Mike Feuer. Kvaðst hann með málssókninni gera lyfjafyrirtækin ábyrg fyrir ópíóðafaraldrinum og þeim „umtalsverðu áhrifum sem kæruleysislegir og óábyrgir viðskiptahættir þeirra“ hafi haft.
Talið er að um 180 Bandaríkjamenn látist dag hvern vegna ofneyslu ópíóða og hefur alríkisdómari nú sameinað um 350 dómsmál gegn lyfjaframleiðendum og birgjum í von um að ná sátt í málinu.
Málshöfðun Los Angeles er gegn fyrirtækjunum Purdue Pharma, Janssen Pharmaceuticals, Endo Pharmaceuticals, Cephalon, Insys Therapeutics og Mallinckrodt, en kröfuskjalið er 165 síður á lengd. Er þar fullyrt að fyrirtækin hafi fengið aðgerðir sínar að láni frá tóbaksframleiðendum með því að nota falskar og blekkjandi markaðsaðferðir og viðskiptahætti til að gera notkun ópíóða við ýmiss konar verkjum að venju.
Er því haldið fram að fyrirtækin hafi viljandi blekkt lækna og sjúklinga varðandi hættuna sem fylgir notkun lyfjanna og virkni þeirra. M.a. með því að draga úr hættunni á fíknisjúkdómum og með því að ýkja upp ávininningin af viðvarandi notkun við stöðugum verkjum.
Framleiðendur „stilltu saman strengi og samhæfðu aðgerðir sínar til að breyta því hvaða augum læknar og sjúklingar líta sársauka, sérstaklega með það í huga að hvetja til notkunar ópíóða sem meðferðar fyrir þann mikla fjölda sem þjáist af stöðugum verkjum,“ segir í málshöfðuninni.
Málshöfðunin nær einnig til birgja, fyrirtækja á borð við McKesson Corporation, Cardinal Health og Amerisource, sem eru sögð hafa látið hjá líða að tilkynna grunsemdir sínar varðandi grunsamlegar pantanir og tíða sölu stórra skammta, líkt og alríkislög kveða á um.
Er slík „meðvituð fáfræði“ sögð hafa valdið því að fíklum hafi fjölgað í Los Angeles, sem og þeim sem látist hafa af völdum of stórra skammta.