Hraunkvikan spýtist nú allt að 30 metra upp í loft eftir að eldfjallið Kilauea á Big Island á Hawaii hóf að gjósa síðastliðna nótt, en meiri kraftur virðist vera að færast í gosið. BBC greinir frá.
Um 1.700 manns var gert að yfirgefa heimili sín, en talið er að nokkur heimili hafi nú þegar skemmst vegna gossins. Athvörf hafa verið opnuð fyrir þá sem ekki hafa í önnur hús að venda.
Miklir jarðskjálftar hafa fylgt eldsumbrotunum, allt að 6,4 að stærð, og sprungur hafa myndast á götum. Yfirvöld hafa hvatt þá íbúa sem enn eru eftir á svæðinu til að koma sér burt strax. Hættulegar gastegundir eru sagðar vera í loftinu og því geti viðbragðsaðilar ekki farið inn á svæðið til að aðstoða þá sem gætu lent í vandræðum. Ekki er talin hætta á flóðbylgju vegna skjálftanna.
Kilauea er eitt virkasta eldfjall í heimi og hafði það vel látið vita af sér síðustu daga með reglulegum jarðskjálftahrinum. Íbúar á svæðinu voru því meðvitaðir um yfirvofandi hættu.
„Fjölskyldan mín er örugg, en allt annað er hægt að bæta. Þegar ég keypti hús hérna fyrir 14 árum vissi ég að þessi dagur myndi renna upp. Við erum smám saman að átta okkur á stöðunni,“ sagði íbúi í samtali við Hawaii News Now.