Skurðlæknir í London segir þá hugmynd Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að byssur séu lausnin í baráttunni gegn hnífstunguárásunum í borginni, vera fáránlega. Á ráðstefnu samtaka skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum (NRA) í gær líkti forsetinn sjúkrahúsum í London við stríðsátakasvæði því þau væru uppfull af fórnarlömbum hnífsstunguárása og blóð flæddi um öll gólf. The Guardian greinir frá.
„Ég las nýlega frétt um sjúkrahús í London þar sem byssulöggjöfin er mjög ströng,“ sagði hann. Sjúkrahúsið, „sem var eitt sinn mjög virt, er nú eins og stríðssvæði vegna hræðilegra stungusára. Þeir eru ekki með byssur, en þeir hafa hnífa og þess vegna er blóð um öll spítalagólfin,“ bætti forsetinn við.
„Þeir segja að þetta sé jafnslæmt og á spítölum á stríðssvæðum. Hnífar, hnífar, hnífar,“ sagði forsetinn og lék stunguhreyfingu til að leggja áherslu á orð sín. „Lundúnabúar eru ekki vanir þessu, en þeir eru að venjast því. Þetta er ansi hrottalegt,“ bætti hann við.
Trump virðist hafa verið að vísa til ummæla Martin Griffiths, yfirbráðaskurðlæknis á Royal London sjúkrahúsinu í Whitechapel hverfinu, sem líkti ummerkjum á sjúkrahúsinu, eftir hrinu hnífsstunguárása, við aðstæður á hersjúkrahúsi. Hann lét ummælin falla í viðtali sem vakti töluverða athygli.
Karim Brohi sem einnig starfar sem bráðaskurðlæknir við spítalann og er jafnframt forstöðumaður bráðalækningadeilda sjúkrahúsanna í London, segir hnífaofbeldi vissulega vera alvarlegt vandamál í London, en gripið hafi verið til aðgerða gegn ofbeldinu sem hafi skilað tilætluðum árangri. „Við erum stolt af bráðaþjónustunni sem við veitum, sem og aðgerðum okkar til að draga úr ofbeldi. Á Royal London sjúkrahúsinu hefur ungum sjúklingum sem koma oftar en einu sinni til okkar með stungusár, fækkað úr 45 prósentum niður í 1 prósent,“ sagði Brohi í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna ummæla Trump.
„Við getum gert fleira í baráttunni gegn ofbeldi, en að leggja til að byssur séu hluti af lausninni, er fáránlegt. Skotsár eru að minnsta kosti tvisvar sinnum banvænni en áverkar af völdum hnífa og mun erfiðara að meðhöndla þau. Við erum stolt af því að vera leiðandi á okkar sviði í heiminum og því að þjóna íbúum London,“ sagði hann jafnframt.
Þá skrifaði Griffiths, sem Trump vísaði til í ræðu sinni, færslu um málið á Twitter og bauð forsetanum að koma í heimsókn á sjúkrahúsið og hitta borgarstjórann og lögreglustjórann í þeim tilgangi kynna fyrir honum þær aðgerðir sem nýttar hafa verið til að draga úr ofbeldi í London.